Hátt í 60 í sóttkví í Vinnuskólanum

Garðabær.
Garðabær. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

50 manna hópur úr vinnuskóla Garðabæjar hefur verið sendur heim í sóttkví eftir að flokksstjóri greindist með COVID-19. Sömu leið fóru nokkrir flokksstjórar. Umræddur flokksstjóri er leikmaður Stjörnunnar í úrvalsdeild í knattspyrnu. RÚV greindi fyrst frá.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ. Ljósmynd/Aðsend

„Auðvitað bregður öllum þegar þetta er í bakgarðinum hjá þér, en svona er þetta bara,“ segir bæjarstjóri Garðabæjar, Gunnar Einarsson. „Við tökum málið alvarlega og erum auðvitað ekki ánægð með þetta en við gerum ekki annað við þessu en að fara að leiðbeiningum eins og hingað til.“

Gunnar segir mikilvægast að ungmennin virði sóttkvína og passi upp á að fylgja leiðbeiningunum: „Við komumst í gegnum þetta, þó að það taki kannski lengri tíma en við héldum,“ segir Gunnar. 

Hundruð í fríi

Samkvæmt upplýsingum frá Huldu Hauksdóttur upplýsingastjóra Garðabæjar var ákveðið að senda öll ungmenni í garðyrkju hjá Vinnuskólanum í frí í dag og á morgun á meðan ástandið er metið. Þau skipta hundruðum, en í eiginlega sóttkví fer aðeins ofangreindur fjöldi, um 50 og svo nokkrir flokksstjórar.

Niðurstöðu er beðið úr skimun meðal flokksstjóranna og svo getur starfsemin haldið áfram. Hulda telur að fyrr en vari verði starfsemin komin í gott horf og kveðst aðspurð ekki óttast að Garðabær hætti að bera nafn með rentu af þessum sökum, þ.e. að garðar bæjarins falli í órækt.

mbl.is