Nýtt smit – tengist mögulega hópsýkingu

Einhverjir munu þurfa að fara í sóttkví vegna nýja smitsins …
Einhverjir munu þurfa að fara í sóttkví vegna nýja smitsins en óljóst er hversu margir munu bætast í þann hóp. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Smitrakningarteymi almannavarna barst tilkynning um eitt nýtt smit kórónuveiru á fimmta tímanum í dag. Líkur eru á að það tengist hópsýkingu sem er komin upp vegna knattspyrnukonu sem kom til landsins frá Bandaríkjunum og greindist ekki smituð í landamæraskimun heldur átta dögum síðar. Þetta staðfestir Ævar Pálmi Pálmason, yf­ir­maður smitrakn­ing­ar­t­eym­is al­manna­varna, í samtali við mbl.is. 

Tilefni þess að viðkomandi aðili fór í veirupróf var umrædd hópsýking. Spurður hvort öruggt sé að smitið tengist hópsýkingunni segir Ævar:

„Það er ekki gott að segja til um það ennþá en það eru líkur á því án þess að það sé hægt að fullyrða neitt um það.“

Einhverjir munu þurfa að fara í sóttkví

Knattspyrnukona og -maður eru á meðal þeirra sem hafa greinst smituð og tengjast hópsýkingunni. Ekki fengust upplýsingar um það hvort um smit hjá knattspyrnukonu eða -manni væri að ræða nú, enda smitrakning bara rétt að byrja.

Spurður hvort einhverjir muni þurfa að fara í sóttkví vegna smitsins segir Ævar:

„Klárlega munu einhverjir þurfa að fara í sóttkví vegna þessa en ég veit ekki hversu margir.“

Fyrst var greint frá nýju smiti í kvöldfréttum RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert