Óvissa um afdrif frumvarps um afglæpavæðingu

Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata.
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég skil persónulega ekki stöðuna. Meirihlutinn vill vísa þessu til ráðherra en þegar við komum með málamiðlunartillögu með því að gera einmitt það með þingsályktunartillögu þá er það slegið af borðinu og allt í einu eru engir þingmenn meirihlutans sem vilja vera með á málinu.“

Þetta segir Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata og fyrsti flutningsmaður frumvarps um afglæpavæðingu neyslu vímuefna, í samtali við mbl.is. Frumvarpið var upphaflega lagt fram á Alþingi í október en var afgreitt út úr velferðarnefnd í morgun.

Í frumvarpinu er lagt til að bann við vörslu, kaupum og móttöku á ávana- og fíkniefnum í neysluskömmtum verði fellt brott. Níu þingmenn úr röðum Pírata, Samfylkingarinnar, Vinstri-grænna, Viðreisnar og Flokks fólksins lögðu frumvarpið fram. Nú virðist sem þingmenn meirihlutans séu að draga í land og styðji frumvarpið ekki lengur.

Enginn áhugi fyrir málamiðlunartillögu Pírata 

„Þegar málið var afgreitt út úr nefnd í morgun þá eru bara þrír þingmenn á nefndarálitinu. Ég, Helga Vala [Helgadóttur í Samfylkingunni], Guðmundur Ingi [Kristinsson í Flokki fólksins] og svo var Hanna Katrín [Friðriksson í Viðreisn] áheyrnarfulltrúi og hún var samþykk,“ útskýrir Halldóra og heldur áfram:

„Það þýðir að meira að segja Ólafur Þór [Gunnarsson í Vinstri-grænum] sem leggur frumvarpið fram er ekki á nefndarfrumvarpinu. Það sem ég hef heyrt er að þingmenn meirihlutans vilji vísa þessu til heilbrigðisráðherra með frávísunartillögu til frekari vinnslu.“

Halldóra segir Pírata hafa lagt fram málamiðlunartillögu þess efnis að breyta frumvarpinu í þingsályktunartillögu sem myndi þá fela heilbrigðisráðherra að koma með frumvarp.

„Við komum með þá tillögu því frávísunartillaga setur enga skyldu á ráðherra að koma með neitt úr þeirri vinnu á meðan þingsályktunartillaga bindur ráðherra miklu meira með því að fela ráðherra að koma með frumvarp. En það var tekið af borðinu og enginn áhugi fyrir því að fara þá leið,“ bætir Halldóra við.

mbl.is