Safnaðist tæp milljón á sólarhring

Þrír létust í eldsvoða á Bræðraborgarstíg 1 á fimmtudaginn.
Þrír létust í eldsvoða á Bræðraborgarstíg 1 á fimmtudaginn. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Á einum degi söfnuðust 26.760 pólsk slots, andvirði tæprar milljónar íslenskra króna, í samskotum sem Pólverji að nafni Michal Sadowski setti af stað vegna vina sinna sem létust í eldsvoða á Bræðraborgarstíg 1 á fimmtudaginn.

Söfnunin átti að fjármagna flutning hinna látnu til Póllands, þaðan sem þau eru sögð vera. Hún hófst í gær en gert var hlé á henni í dag í ljósi þess að ekki er vitað hve mikið fé aðgerðin útheimtir. Á vefsíðunni segir að efnt sé til söfnunarinnar í samráði við fjölskyldu hinna látnu.

Söfnunin lýtur að tveimur einstaklingum sem létust í brunanum en samtals létust þrír. Einn er enn á gjörgæslu. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur enn ekki borið kennsl á hin látnu með svo óyggjandi hætti að hún treysti sér til að birta nöfn þeirra.

Fólkið sem lést var búsett á efstu hæð hússins en maður á sjötugsaldri liggur undir grun um að hafa lagt eld að vistarverum sínum á efstu hæð hússins. Hann er í haldi lögreglu.

mbl.is