Sjúkrabíll fór út af hála vegarkaflanum

Aðstæður á vegarkafla á Kjalarnesi þar sem banaslys varð í …
Aðstæður á vegarkafla á Kjalarnesi þar sem banaslys varð í gær voru mjög varasamar sökum nýs slitlags. Sjúkrabíll hafnaði utan vegar á leiðinni á slysstað þar sem bremsuviðnámið var lítið sem ekkert sökum hálku. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Sjúkrabíll hafnaði utan vegar á Kjalarnesi í gær þegar sjúkraflutningsmenn og slökkvilið voru á leið á vettvang alvarlegs umferðarslyss. Vegarkaflinn þar sem slysið varð var mjög háll sökum nýs slitlags.  

„Hann var á eftir slökkvibíl og var kannski ögn of nálægt og þegar hann byrjaði að bremsa þá bara gerðist ekki neitt og hann renndi sér út í kantinn,“ segir Guðjón Guðjónsson, innivarðstjóri í slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Hann segir að samstarfsfélagi hans hafi haft úr tveimur vondum kostum að velja; að lenda aftan á slökkvibílnum eða keyra út af. „Hann var snöggur að hugsa og valdi skárri kostinn,“ segir Guðjón.

Liðsmenn slökkviliðsins tóku þátt í rannsókn á vettvangi eftir hádegi þar sem bremsuprófun fór meðal annars fram á vegarkaflanum. 

Vegagerðin hefur gefið út að nýtt malbik verði lagt yfir umræddan kafla, á milli Grundarhverfis og Hvalfjarðarganga, um leið og aðstæður leyfa. Mæling Vegagerðarinnar í dag sýnir að ný­lögn stenst ekki staðla og útboðsskil­mála varðandi viðnám. 

mbl.is