Steingrímur óskaði Guðna til hamingju

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/​Hari

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, óskaði Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, til hamingju með endurkjörið í upphafi þingfundar í morgun. Guðni var sem kunnugt er endurkjörinn með 92% atkvæða í forsetakosningum nú á laugardag.

Steingrímur minnti á að forseti Íslands væri samkvæmt stjórnarskrá annar handhafi löggjafarvalds, og samskipti forseta og þings því veruleg og þýðingarmikil. 

„Ég vil fyrir hönd Alþingis óska Guðna Th. Jóhannessyni til hamingju með endurkjörið og þann afgerandi stuðning sem hann hlaut, senda honum og fjölskyldu hans heillaóskir um leið og við væntum áframhaldandi góðs samstarfs Alþingis og forseta Íslands,“ sagði Steingrímur og bað þingheim í kjölfarið að rísa úr sætum til að taka undir orð sín.

Fundur hófst á Alþingi klukkan 10:20 í morgun og er viðbúið að hann standi fram á nótt. Stefnt er að því að ljúka þingi fyrir sumarfrí í dag, en þó er viðbúið að þinghald geti dregist fram á morgundag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert