Afglæpavæðing en bara ekki strax

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spjótin hafa staðið á ríkisstjórninni í dag eftir að frumvarp Pírata um afglæpavæðingu fíkniefna var fellt af meirihlutanum í nótt. Þar var gert ráð fyrir afnámi refsingar fyrir vörslu neysluskammts af fíkniefnum. Bent hefur verið á að sjónarmið áþekk þeim sem frumvarpið byggir á séu í stjórnarsáttmála sjálfrar stjórnarinnar, en þrátt fyrir það hafi hún lagst gegn breytingunum. 

Á meðan Samtök ungra sjálfstæðismanna gagnrýna móðurflokkinn fyrir aðgerðaleysið og óprúttnir aðilar áminna þingmann Vinstri grænna með óviðfelldnum hætti, segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að stjórnarliðar hafi hafnað frumvarpinu í nafni góðrar lagasetningar. 

Vönduð lagasetning

„Það er mikið talað um vandaða lagasetningu. Þetta er mál sem snýst að einhverju leyti um ákveðna breytingu á samfélagslegu gildismati. Ekki síst í slíkum málum, sem eru fjarri því að vera bara lagatækni heldur snúast um samfélagslegar breytingar, skiptir mjög miklu máli að það sé mjög vandað til undirbúnings,“ segir Katrín við mbl.is. 

Forsætisráðherra segir að óháð þessari niðurstöðu hafi ríkisstjórnin verið að vinna að stefnu um afglæpavæðingu. Þannig hafi frumvarp um neyslurými verið samþykkt fyrr á þessu þingi og nú sé verið að útfæra þau lög. Frumvarpið núna hafi bara ekki staðist kröfur um vinnubrögð, en dómsmálaráðherra kvaðst til að mynda efnislega sammála frumvarpinu. 

„Við töldum að þetta mál hefði þurft meira samráð og meiri vinnslu. Það hefði þurft að kalla eftir til að mynda áliti refsiréttarnefndar, eins og dómsmálaráðherra hefur bent á. Það hefði þurft aukið samtal við lykilaðila í heilbrigðiskerfinu og löggæslukerfinu og það kom sömuleiðis fram í gær að heilbrigðisráðherra er að vinna að slíku máli, sem ég held að skipti máli að sé vandað til og fái nægilega umræðu. Það er stóra sjónarmið okkar í þessu máli,“ segir Katrín.

mbl.is