Áhersla á Íslendinga sem koma frá hááhættusvæðum

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir að enn eigi eftir að skilgreina hááhættusvæði, en fram kom á upplýsingafundi almannavarna í gær að til skoðunar sé að setja einstaklinga sem koma frá ákveðnum svæðum í sóttkví og jafnvel skima oftar en einu sinni fyrir kórónuveirunni. 

Víðir segir það enn ekki komið á hreint hvaða lönd það verði sem falli undir skilgreiningu almannavarna á hááhættusvæði. 

„Það er ekki komið. Það er bara verið að skoða hvaða lönd þetta eru og þarna er verið að horfa fyrst og fremst á Íslendinga sem eru að koma frá þessum svæðum,“ segir Víðir. 

Einblínt er á Íslendinga sem hingað koma fremur en erlenda ferðamenn sem hafa almennt takmörkuð samskipti við aðra en ferðafélaga. 

„Við erum búin að fara í smitrakningar hjá ferðamönnum, sérstaklega til þess að byrja með þegar þeir fengu ekki alveg nógu skýr skilaboð og voru að þvælast eitthvað um á meðan þeir biðu eftir niðurstöðum. Þá vorum við að tala um einhverja 2 til 3 aðila og það voru yfirleitt bara ferðafélagar. En svo þekkjum við öll söguna frá því um helgina, hvað þessir fjórir, fimm aðilar hittu marga. Þetta er bara það sem við höfum séð, að samskipti ferðamanna við íslenskt samfélag eru svo lítil,“ segir Víðir. 

Um helgina kom upp hópsýking sem rekja má til konu sem kom hingað til lands frá Bandaríkjunum. Víðir segir að smitrakning vegna þessa sé enn í gangi. Búið sé að koma skilaboðum til allra sem gætu verið sýktir en ekki er búið að tala við alla. 

Þá segir Víðir að tvö smit sem komu upp hjá starfsmönnum atvinnuvegaráðuneytinu tengist líklega hópsýkingunni. 

„Þetta er allt saman tengt teljum við, það eru tengingar í þessu öllu saman en við eigum eftir að skoða þetta betur.“

mbl.is