Framfærsla tekjulágra eldri borgara styrkt

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra um félagslegan viðbótarstuðning við eldri borgara var samþykkt á Alþingi í gær. Frumvarpinu er ætlað að styrkja framfærslu eldri borgara sem eiga engin eða takmörkuð lífeyrisréttindi í almannatryggingakerfinu.

Samkvæmt frumvarpinu öðlast einstaklingar, sem hafa lítil eða engin lífeyrisréttindi, rétt til viðbótarstuðnings sem getur að hámarki numið 90% af fullum lífeyri. Breytingin tekur til einstaklinga sem hafa náð 67 ára aldri og hafa lögheimili og fasta búsetu hérlendis.

Ekki kemur þó til greiðslu viðbótarstuðnings ef eignir umsækjanda í peningum eða verðbréfum nema hærri fjárhæð en 4 milljónum króna.

Frumvarpið er unnið upp úr tillögum starfshóps um kjör aldraða sem skipaður var af ráðherra, en honum var falið að fjalla um kjör eldri borgara og gera tillögur að aðgerðum til að bæta stöðu þeirra sem verst eru settir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert