Grunur um að brunavörnum hafi verið ábótavant

Slökkviliðsmaður á vettvangi á fimmtudag. Aðstæðurnar voru krefjandi fyrir slökkviliðið.
Slökkviliðsmaður á vettvangi á fimmtudag. Aðstæðurnar voru krefjandi fyrir slökkviliðið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grunur er uppi um að brunavörnum í húsi við Bræðraborgarstíg sem brann síðastliðinn fimmtudag hafi verið ábótavant, að því er fram kemur í tilkynningu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Þrír létust í brunanum og tveir slösuðust alvarlega en lögfræðingur eiganda hússins hefur áður gefið út að brunavörnum hafi ekki verið ábótavant.

Í húsinu bjó fjöldi erlends verkafólks og hefur vakið athygli að í húsnæðinu voru alls 73 með skráð lögheimili. HMS fundaði í dag um stöðu brunaeftirlits og brunavarna með Jóni Viðari Matthíassyni, slökkviliðsstjóranum á höfuðborgarsvæðinu, og Nikulási Úlfari Mássyni, byggingarfulltrúa í Reykjavík.

„Samhljómur var á fundinum um mikilvægi brunavarna og að fullt tilefni sé til að vinna saman að frekari úrbótum á regluverki og verklagi. Þá var rætt að fyrirhuguð skráning leigusamninga væri mikilvægt skref og samkeyrsla leiguskrár við lögheimilisskráningar“, segir í tilkynningu.

Líta megi til árangurs í umferðaröryggi

„Einnig voru ræddar auknar heimildir til slökkviliða og byggingafulltrúa við eftirlit og aukið samstarf við tryggingafélög. Þá kom fram að nýta mætti árangur í öðrum málaflokkum líkt og umferðaröryggi þar sem gengið hefur vel að draga úr alvarlegum slysum með samstilltu átaki. Einnig var rætt að leggja þyrfti áherslu á að byggingaröryggisgjaldið sem innheimt er af ríkinu skili sér til brunavarna.“

Rannsókn HMS á brunanum er í fullum gangi en hún er leidd af Davíð Snorrasyni, yfirmanni brunaeftirlits hjá stofnuninni. Markmið rannsóknarinnar er að draga lærdóm af brunanum og kanna hvort nauðsynlegt sé að breyta regluverki. Niðurstöður rannsóknarinnar gætu legið fyrir síðar á árinu. 

„Samhliða hefur HMS til skoðunar aðrar aðgerðir í, meðal annars hvort hindra megi að svo margir hafi skráð lögheimili á einum stað, til dæmis með bættri skráningu leiguhúsnæðis. Með tilkomu leiguskrár HMS, sem ákvæði er um í frumvarpi að breytingu á húsaleigulögum sem lagt hefur verið fram á Alþingi, verður til ný leið til að safna upplýsingum og koma auga á frávik. Eins og staðan er í dag eru stjórnvöld eingöngu með yfirsýn yfir þann hluta leigumarkaðarins sem er á höndum sveitarfélaga eða þegar til staðar eru þinglýstir leigusamningar, sem er því miður yfirleitt ekki raunin í tilfelli herbergjaleigu til erlends verkafólks.“

Fjöldi fólks hefur minnst hinna látnu og sýnt þeim sem …
Fjöldi fólks hefur minnst hinna látnu og sýnt þeim sem eiga um sárt að binda vegna eldsvoðans samúð með því að leggja blóm við húsið sem brann. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Fól HMS sérstakt átak í brunavörnum mánuði fyrir brunann

Næsta skref hjá HMS er að hefja vinnu við áðurnefndar aðgerðir og ræða við fleiri aðila um útbætur. 

Sérstaklega er horft til Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og félagsmálaráðuneytisins en Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra lýsti því yfir í dag að hann vilji skoða lagabreytingar til að efla brunaeftirlit. Ráðherra fól HMS í lok maímánuðar síðastliðnum að fara í sérstakt átak á sviði brunamála. Í átakinu felst meðal annars að fjölgað verður sérfræðingum sem sinna þessum málaflokki sérstaklega hjá stofnuninni“, segir í tilkynningu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina