Hlutdeildarlán bíða haustsins

Stefnt er að því að samþykkja frumvarp um hlutdeildarlán á …
Stefnt er að því að samþykkja frumvarp um hlutdeildarlán á þingstubbi í lok ágúst. mbl.is/Árni Sæberg

Þingstörfum lauk í nótt og voru tugir stjórnarfrumvarpa samþykktir á síðustu fundum þingsins í gær. Í samræmi við samkomulag þingflokka um þinglok urðu mörg stjórnarfrumvörp þó að bíða betri tíma.

Þing kemur næst saman eftir þingfrestun í lok ágúst en þá er áætlað að samþykkja breytingar á fjármálastefnu og önnur mál sem hafa með kórónuveirufaraldurinn að gera. Því til viðbótar verður umræðum haldið áfram um frumvarp félagsmálaráðherra um hlutdeildarlán, en því er ætlað að auðvelda tekjulágu fólki að kaupa fyrsta húsnæði.

Önnur frumvörp verða ekki tekin fyrir á þingstubbnum í ágúst en að honum loknum verður þingi slitið. Önnur stjórnarfrumvörp, svo sem boðaðar breytingar á útlendingalögum, þarf því að leggja fram aftur á næsta þingi sem hefst 1. október.

Hlutdeildarlánin eru meðal forsenda sem settu eru í lífskjarasamninginn svokallaða milli verkalýðshreyfingarinnar, Samtaka atvinnulífsins og ríkisins, en Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur lýst því yfir að hann telji sig þurfa endurnýjað umboð til að framlengja lífskjarasamninginn þegar endurskoðun hans fer fram, 1. september.

Með frumvarpinu myndi ríkið veita allt að 20% viðbótarlán fyrir húsnæðiskaup sem endurgreitt er við sölu eignarinnar. Fær ríkið þá bæði láns­fjár­hæðina og þá hlut­falls­legu hækk­un sem hef­ur orðið á sölu­verðmæti eign­ar­inn­ar miðað við hlut ríkisins í eign­inni.

mbl.is