Lögmæti innviðagjalds staðfest

Málið var prófmál á lögmæti svonefnds innviðagjalds.
Málið var prófmál á lögmæti svonefnds innviðagjalds. mbl.is/​Hari

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Reykjavíkurborg af kröfu verktakafyrirtækisins Sérverks ehf. um endurgreiðslu rúmlega 120 milljóna króna innviðagjalds sem fyrirtækið hafði greitt vegna lóðar í Kuggavogi 5 í Vogahverfi.

Málið var prófmál á lögmæti svonefnds innviðagjalds sem Reykjavíkurborg hefur lagt á lóðasölu samkvæmt samkomulagi, en markmið þess er að sögn borgarinnar að stofnkostnaður innviða á nýjum byggingarsvæðum verði greiddur með fjármunum sem fáist af uppbyggingunni. Samtök iðnaðarins hafa gagnrýnt gjaldtökuna og stóðu þau að dómsmálinu ásamt verktakanum. 

Verktakinn byggði kröfu sína á því að gjaldtakan væri skattheimta og samkvæmt 40. grein stjórnarskrárinnar mætti engan skatt leggja á nema með lögum. Héraðsdómur hafnaði þessum málatilbúnaði. Umrædd greiðsla byggðist á gagnkvæmu samkomulagi um lóðasölu og væri hluti af söluverði lóðar, en ekki skattur eða ígildi skatts. Þá var því jafnframt hafnað að borginni værri óheimilt að ráðstafa greiðslunni til lögbundinna verkefna sinna eða verkefna sem í lögum væri markaður sérstakur tekjustofn.

Reykjavíkurborg var því sýknuð af kröfunni og verktakanum gert að greiða borginni 1,9 milljónir króna í málskostnað.

mbl.is