Sýni úr malbikinu send til Svíþjóðar

Frá vegkaflanum á Vesturlandsvegi þar sem banaslys varð á sunnudag.
Frá vegkaflanum á Vesturlandsvegi þar sem banaslys varð á sunnudag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Sýni úr malbiki á Vesturlandsvegi, þar sem tveir létust í umferðarslysi á sunnudag, verða send til greiningar, annars vegar til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og hins vegar til Svíþjóðar. Þetta segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is. Slík rannsókn gæti tekið einhvern tíma og því ekki hægt að segja til um strax hvort og þá hvað fór úrskeiðis við lagningu vegarins.

Líkt og greint hefur verið frá var nýr vegkafli á Vesturlandsvegi mun hálli en kröfur Vegagerðarinnar segja til um þegar slysið átti sér stað. Svo hált var raunar á vettvangi að sjúkrabíll sem kom aðvífandi fór út af veginum.

Tekin hefur verið ákvörðun um að malbika vegkaflann aftur og sömu sögu er að segja af kafla á Gullinbrú í Reykjavík þar sem sami verktaki, Loftorka, sá um framkvæmd. Sá vegkafli mældist einnig of háll.

Verklag það sama og áður

G. Pétur segir verktakann og malbikunarstöðina Höfða hafa áratugareynslu af lagningu malbiks og að verklag við þessar tvær framkvæmdir hafi ekki verið öðruvísi en venjan er. „Aðferðin og efnið eru bara það sem hefur verið notað áður,“ segir G. Pétur. „Við vitum að þetta eru reyndir verktakar og þeir segja okkur að það sé ekkert sem þeir geta sett fingur á að sé að.“ Því sé rannsóknarefni hvers vegna malbikið á þeim tveimur hafi reynst svo hált og ekki uppfyllt umrædd skilyrði.

Gert er ráð fyrir að vinna við malbikun á Gullinbrú hefjist á morgun, en fyrst þarf að fræsa gamla malbikið. Þá hefjast framkvæmdir á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi á næstu dögum en þangað til hefur hámarkshraði verið lækkaður niður í 50 km/klst.

Lögreglurannsókn á veginum stendur yfir. Í samtali við mbl.is segir Elín Agnes Kristínardóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn að lítið sé hægt að segja um rannsóknina að svo stöddu. Þá vildi Kristinn Guðjónsson, framkvæmdastjóri verkfræðistofunnar Hnits, ekki veita viðtal þegar þess var óskað, en verkfræðistofan fór með eftirlit með framkvæmdinni við Vesturlandsveg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert