„Við verðum að geta treyst vegunum“

Bifhjólamenn stóðu fyrir mótmælum við húsnæði Vegagerðarinnar í dag.
Bifhjólamenn stóðu fyrir mótmælum við húsnæði Vegagerðarinnar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jokka G. Birnudóttir, gjaldkeri Sniglanna, las upp yfirlýsingu fyrir hönd bifhjólafólks fyrir utan höfuðstöðvar Vegagerðarinnar í Borgartúni þar sem efnt var til mótmæla kl. 13 vegna ástands vega í landinu. Tilefnið er slys sem varð á Kjalarnesvegi á sunnudag og má rekja til hálku sem myndaðist á nýlögðu malbiki.

Yfirlýsingin hljóðar svo:

„Það er sorg í hjörtum hjólafólks í dag. Hörmulegur atburður hefur orðið til þess að öll sem eitt höfum við risið upp og segjum öll það sama; við erum búin að fá nóg.

Hver einasta manneskja sem hefur notað mótorhjól getur sagt sögu af hálum vegum, lausamöl ofan á malbiki, einbreiðum brúm, hvassar brúnir við ristahlið, sagt okkur sögur þar sem viðkomandi hefur nánast dottið, eða dottið og hlotið skaða af.

Í mörg ár hefur verið bent á þetta, kvartað undan þessu, við ráðamenn þjóðarinnar, við Vegagerðina, við verktaka, en upplifun okkar er sú að það er ekki hlustað á okkur.

Við fáum að heyra; hægið bara á ykkur, eða þið verðið bara að fara varlega.
En við verðum að geta treyst vegunum ekki satt?

Það hafa orðið fleiri banaslys vegna lélegra vega, það hafa fleiri mótorhjólamenn hlotið varanlega skaða vegna hálku á malbiki. En við krefjumst breytinga, við krefjumst að öryggi fólks á vegum úti verði í forgangi, ekki bara okkar mótorhjólamanna heldur allra sem ferðast um.

Burt með ónýtt efni í malbikun, burt með einbreiðar brýr, blindhæðir og skyndilausnir. Við viljum að Vegagerðin, Samgönguráðherra, verktakar og birgjar taki höndum saman og komi í veg fyrir að svona aðstæður myndist ekki aftur.

Ég bið um einnar mínútu þögn í minningu fallinna félaga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert