Vill að slökkviliðið fái að fara inn á heimili

Húsið gjöreyðilagðist í brunanum í síðustu viku,
Húsið gjöreyðilagðist í brunanum í síðustu viku, mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar, segir að á meðal þess sem stóð upp úr á fundi nefndarinnar í dag um brunann á Bræðraborgarstíg 1 hafi verið það sjónarmið að gefa þurfi slökkviliði heimild til þess að fara inn á heimili fólks til þess að kanna eldvarnir.

„Aðstæður verða að vera þannig að þegar ýmist leigjendur sjálfir eða nágrannar sjá að hætta er á ferð í einhverju tilteknu húsnæði, geti þau óskað liðsinnis þeirra sem hafa þekkingu á brunavörnum,“ segir Helga Vala í samtali við mbl.is.

Núna er slökkviliði aðeins heimilt að fara inn í húsnæði þar sem atvinnustarfsemi fer fram, hvort sem það eru fyrirtæki eða gistiheimili, og þá er því heimilt að kanna lóðir einkaheimila þegar grunur leikur á um slysahættu. Eftirlit með íbúðarhúsnæði er hins vegar ekki leyfilegt.

Helga Vala telur að þessu megi breyta án þess að gengið sé á friðhelgi heimilisins. „Ég held að við hljótum að geta búið þannig um hnútana að þetta væri bara í nauðsynlegum málum en auðvitað ekki þannig að slökkviliðið banki bara uppá á hverjum degi,“ segir hún.

Smánarblettur á okkar samfélagi

Helga segir ljóst að breytingar þurfi að verða á aðbúnaði erlends verkafólks hér á landi. „Þetta er slíkur smánarblettur á okkar samfélagi að við verðum að taka höndum saman og uppræta þetta,“ segir hún.

Á fundi velferðarnefndar mættu fjölmargir aðilar sem láta sig málaflokkinn varða: Félagsmálaráðherra, borgarstjóri, slökkviliðsstjórinn á höfuðborgarsvæðinu, bæjarstjórar Garðabæjar og Kópavogs og fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar. Að sögn Helgu var einnig rætt um að knýja á um að stofnanir sem hefðu færi á að flagga grunsamlega tölfræði og hegðun innan kerfisins, eins og Þjóðskrá og Vinnumálastofnun, myndu gera það í auknum mæli, enda hæg heimatökin þar sem sýslað er með gögn eins og leigusamninga.

Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar.
Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar. mbl.is/Hari
mbl.is