„Ætlaði svo sem ekki að efna til neinna leiðinda“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég ætlaði svo sem ekki að efna til neinna leiðinda, ég var bara að benda á þetta sem mér fannst hafa farið forgörðum í umræðunni. Eitt er að segja: Ráðherra má gera þetta. Annað er að láta hann hafa fjárheimildina og það er eftir,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í samtali við mbl.is.

Fjármálaráðherrann hefur legið undir ámæli eftir að hann gaf í skyn að kálið væri ekki sopið þó að í ausuna væri komið í sambandi við nýsamþykkt frumvarp um gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu. Samþykkt var á þinginu í vikunni að Sjúkratryggingar Íslands færu að greiða fyrir sálfræðiþjónustu einstaklinga, en Bjarni sagði í Bítinu á Bylgjunni í gær að þar með væri ekki komin fjárheimild til málaflokksins til þess að sinna þessum endurgreiðslum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar var flutningsmaður frumvarpsins og gagnrýndi Bjarna fyrir orðræðu á þessa leið. Hún tók meðal annars fram að Bjarni hafi verið viðstaddur afgreiðslu frumvarpsins, en ekki gert athugasemdir við það þá.

Í sama streng tók Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar á Facebook: „Hann hendir þessu semsagt í fangið á Svandísi!! Mikið ofboðslega er þetta lélegt. Svandís er ekki fjármálaráðherra sem ber meðal annars að afla tekna. Henni ber að framfylgja þeim lögum sem undir hana heyra og ég treysti henni og hvet hana til að klára málið og mun styðja hennar baráttu fyrir fjárveitingu í málaflokkinn.“

Skautað léttilega yfir fjármögnunarþáttinn

„Það sem ég var einfaldlega að benda á,“ segir Bjarni, „er að Alþingi getur tekið ákvörðun um að heimila ráðherranum að semja við sálfræðinga inn á Sjúkratryggingar og mér finnst að það hafi verið orðið tímabært skref. Hitt er auðvitað miklu stærra skref, það er að fjármagna slíka þjónustu.“

Bjarni segir það þannig Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að svara því hvort hún sjái fyrir sér að skapa rými fyrir þessa auknu þjónustu hjá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ). Hún hafi tiltekið fjármagn til ráðstöfunar og velji hvernig því er varið innan sjúkratrygginganna. Umræða um þennan þátt telur Bjarni að hafi farið forgörðum á þinginu.

„Ég held að minnsta kosti að menn hafi skautað dálítið léttilega yfir þann þátt málsins í þinglegri meðferð, þar sem það má gera ráð fyrir því að lágmarks kostnaðarþátttaka ríkisins muni hlaupa á hundruðum milljóna ef ekki 1-2 milljörðum. Það hefur sýnt sig á undanförnum árum að okkur hefur ekki gengið sérstaklega vel að halda sjúkratryggingum innan fjárheimilda. Það hefur frekar verið á hinn veginn, bæði vegna lyfjakostnaðar og samningar við sjúkraþjálfara hafa reynst kostnaðarsamir og fleiri dæmi mætti nefna,“ segir Bjarni. 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar var fyrsti flutningsmaður frumvarps um …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar var fyrsti flutningsmaður frumvarps um gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu. Hún gagnrýnir Bjarna fyrir að setja fyrirvara eftir á við frumvarp sem hann sjálfur samþykkti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það sem mun gerast næst er að við setjum saman fjárlög fyrir næsta ár og fjármálaáætlun og þá hugsum við þetta þannig að það séu ákveðnir rammar fyrir fagráðuneytin og það gildir líka fyrir Sjúkratryggingar undir heilbrigðisráðuneytinu,“ segir Bjarni þá. Síðan ákveði heilbrigðisráðherra hvernig fjármununum sem heyra undir sjúkratryggingar verði ráðstafað innbyrðis.

Skipti miklu að fá hagvöxt

Halli ríkissjóðs verður hundruðum milljarða meiri en áætlað var fyrir kórónuveirufaraldur. Bjarni segir halla eitt en fjármögnunarþörf ríkisins annað. „Það stefnir í að á þessu ári verði hallinn um 300 milljarðar, en það er síðan þannig að ríkissjóður þarf að fjármagna sig á þessu ári umfram þennan halla, vegna þess að við erum að veita gjaldfresti, það eru eldri lán að koma á gjalddaga og aðrir hlutir sem falla til. Fjármögnunarþörf ríkisins á þessu ári losar því 400 milljarða, en það er ekki hallinn,“ segir Bjarni.

Ráðherrann er langeygur eftir hagvexti. „Þegar við erum að smíða okkar fimm ára áætlun erum við með augað á því hvernig þessi hallarekstur sem verður viðvarandi í nokkurn tíma mun hafa áhrif á skuldahlutföllin. Okkar sýn á þetta er sú að skuldahlutföllin verði viðráðanleg þrátt fyrir hallarekstur á þessu ári og kannski á næstunni. Það þarf ekki að liggja lengi yfir þessu til að sjá hversu miklu skiptir að fá hagvöxt, af því að hann hefur áhrif á þessi hlutföll,“ segir Bjarni.

mbl.is

Bloggað um fréttina