Borgarlína staðreynd

Sigurður Ingi Jóhannsson nýstiginn út úr bifreið. Borgarlínustöð verður steinsnar …
Sigurður Ingi Jóhannsson nýstiginn út úr bifreið. Borgarlínustöð verður steinsnar frá Ráðherrabústaðnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áður en þingi lauk voru samþykkt frumvörp um samgönguáætlun til fimm og fimmtán ára og frumvarp um stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir að með því sé borgarlínan meitluð í stein: „Verkefnið er bara farið af stað,“ staðfestir hann við mbl.is.

Þegar samgönguáætlunin var samþykkt skrifaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að þar með væri síðasti fyrirvarinn fallinn um gildi samgöngusáttmálans, en í honum er meðal annars kveðið á um borgarlínu.

Eins og Sigurður Ingi bendir á er borgarlína vitaskuld ekki eini þáttur sáttmálans: „Þetta eru þessi verkefni sem er lýst, borgarlínan, stofnbrautirnar, hjólabrautir og göngustígar og umferðarstýringin og svo framvegis. Þetta verður frágengið í þessu [opinbera hluta]félagi og það gerir síðan samning við Vegagerðina um framkvæmd verksins og þar liggur undir framkvæmdaáætlun sem var kynnt við sáttmálann en var líka kynnt að gæti tekið einhverjum breytingum, s.s. tímalínur eða útfærslur einstakra verka,“ segir Sigurður.

Ertu sammála um að síðasti fyrirvarinn við borgarlínuna sé fallinn? 

„Ég er sammála því, já, og við allt verkefnið, sem er fjölþætt, en ekki bara borgarlínuna,“ segir hann. En hún er örugg? „Já, á sama hátt og stofnbrautirnar.“

Svona verður borgarlínan, vagnar með sérakreinar sem aka þessar stofnleiðir.
Svona verður borgarlínan, vagnar með sérakreinar sem aka þessar stofnleiðir.
mbl.is