„Glatað að þykjast vera að sýna ábyrgð“

„Við verðum að gera þetta saman og það þurfa allir …
„Við verðum að gera þetta saman og það þurfa allir að taka þátt í þessu,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn um aðgerðir til að viðhalda sóttvörnum í baráttunni gegn kórónuveirufaraldrinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafa sent öllum lögreglustjórum landsins og umdæmis- og svæðislæknum sóttvarna minnisblað um uppskiptingu í sóttvarnahólf á samkomum þar sem fleiri en 500 koma saman. 

Tilefnið eru kvartanir sem almannavörnum hafa borist síðustu daga þess efnis að skipuleggjendur hafi ekki tryggt að farið sé eftir nákvæmum fyrirmælum varðandi hólfin og að samgangur sé milli hólfa.

Á upplýsingafundi almannavarna í dag greindi Víðir frá því að hann hefði rætt við nokkra sem sótt hafa umrædda viðburði og tekið eftir að sóttvörnum hafi verið ábótavant. Viðir brýnir fyrir fólki að láta skipuleggjendur vita ef svo er raunin en ekki halda áfram að sækja umrædda viðburði líkt og ekkert hafi í skorist. 

„Það er alveg glatað að þykjast vera að sýna ábyrgð með því að kvarta yfir þessu og hafa svo ekkert sýnt neina ábyrgð á staðnum. Það getur enginn gert þetta fyrir okkur, við verðum að gera þetta saman og það þurfa allir að taka þátt í þessu,“ sagði Víðir á fundinum í dag. 

Í minnisblaðinu er farið yfir leiðbeiningar um alla hólfaskiptingu utanhúss og innandyra. Nokkrir stórir viðburðir eru fyrirhugaðir um helgina, meðal annars stórt knattspyrnumót á Akureyri, og vonast Víðir til að þess að minnisblaðið hjálpi skipuleggjendum við útfærslu.

Frá upplýsingafundi almannavarna fyrr í dag.
Frá upplýsingafundi almannavarna fyrr í dag. Ljósmynd/Lögreglan
mbl.is