Krefjast umfangsmikilla aðgerða strax

Í ályktun Ungra jafnaðarmanna vegna brunans á Bræðraborgarstíg og stöðu …
Í ályktun Ungra jafnaðarmanna vegna brunans á Bræðraborgarstíg og stöðu erlends launafólks á Íslandi segir að nauðsynlegt sé að farið verði í ítarlega rannsókn á tildrögum brunans og að þau sem beri ábyrgð verði sótt til saka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ungir jafnaðarmenn telja að enn skorti aðgerðir og vilja stjórnvalda gegn kennitöluflakki og félagslegum undirboðum, líkt og kveðið var á um í lífskjarasamningi, og krefjast umfangsmikilla aðgerða strax.

Í ályktun Ungra jafnaðarmanna vegna brunans á Bræðraborgarstíg og stöðu erlends launafólks á Íslandi segir að nauðsynlegt sé að farið verði í ítarlega rannsókn á tildrögum brunans og að þau sem beri ábyrgð verði sótt til saka. Ólíðandi sé að við búum í samfélagi þar sem mannslíf þurfi að glatast til þess að kveikja umræðu um kerfisbundið misrétti, ekki ólíkt því sem gerðist í Bandaríkjunum í kjölfar dauða George Floyds.

„Það er þó öllum ljóst að þetta var einungis dropinn sem fyllti mælinn og er kerfisbundinn rasismi daglegt brauð þar í landi. Ungir jafnaðarmenn vona að nú taki Íslendingar sama skref, átti sig á stöðunni á Íslandi og leyfi misréttinu ekki að þrífast lengur í þögninni.“

Á Íslandi hafi útlendingahatur fengið að festa rætur og lifi góðu lífi. Það birtist með ýmsum hætti en byggi allt á vanvirðingu gagnvart fólki af erlendum uppruna, og birtingarmyndir þess á vinnumarkaði séu helst vinnumansal og félagslegt undirboð.

Ungir jafnaðarmenn taki nú sem áður undir kröfur verkalýðshreyfingarinnar um að staða erlends verkafólks verði bætt, eftirlit aukið á vinnustað og íbúðarhúsnæði og að hægt verði að refsa þeim atvinnurekendum sem brjóti á starfsfólki.

„Ungir jafnaðarmenn fara enn fremur fram á að lögreglan hætti „racial profiling“, þ.e. að yfirvöld láti af því að eltast við fólk af sérstöku þjóðerni, einfaldlega vegna þjóðernis einstaklinganna. Þá er ljóst að auðvelda þarf aðgengi innflytjenda að kerfinu, veita fólki aðstoð þegar það þarf að leita réttar síns og sýna þeim að samfélagið tekur þeim opnum örmum. Fólk af erlendum uppruna sem oft er í viðkvæmri stöðu á að geta treyst á lögreglu og aðrar stofnanir.“

Að lokum vilja Ungir jafnaðarmenn vekja athygli á eftirfarandi þætti úr megininntaki Lífskjarasamninganna: Samningsaðilar vilja treysta í sessi heilbrigðan vinnumarkað þar sem brot á launafólki líðast ekki með því að lögfestar verði aðgerðir gegn kennitöluflakki og félagslegum undirboðum sem jafnframt tryggi jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja.

„Ungir jafnaðarmenn telja að enn skorti verulegar aðgerðir og vilja frá stjórnvöldum til þess að mæta þessum atriðum. Ljóst er að ekki er hægt að bíða til loks samningstímans til þess að bæta stöðu erlends launafólks. Ungir jafnaðarmenn krefjast umfangsmikilla aðgerða strax.“

mbl.is

Bloggað um fréttina