„Þetta hefur gengið mjög vel og vandræðalaust,“ segir Guðjón Vilhjálmsson, forstöðumaður heilbrigðislausnasviðs Origo, um sýnatöku komufarþega á Keflavíkurflugvelli það sem af er morgni.
Gjaldtaka fyrir skimanir á landamærum Íslands hófst í morgun en skimunin hefur verið gjaldfrjáls frá því að hún hófst 15. júní. Gjaldið er 11.000 krónur en ekki 15.000 krónur eins og áður var áætlað. Ef farþegar greiða fyrirfram er gjaldið hins vegar 9.000 krónur. Meirihluti farþeganna sem komu í morgun greiddi fyrirfram fyrir sýnatökuna.
Þrjár vélar hafa lent það sem af er degi, vél EasyJet kom frá Lundúnum á níunda tímanum og tvær vélar SAS, frá Kaupmannahöfn og Osló, lentu á ellefta tímanum.
Af um 150 farþegum hefur vel yfir helmingur, líklega um 70%, greitt fyrirfram og segir Guðjón það flýta fyrir ferlinu. Hann veit ekki til þess að einhver farþeganna hafi valið að fara frekar í tveggja vikna sóttkví í stað þess að greiða skimunargjaldið.
„Allt skimunarferlið er framandi þeim sem koma og fólk er kannski svolítið týnt ef það hefur ekki fengið upplýsingar frá sínu flugfélagi. En starfsfólk Isavia stendur sig mjög vel í að leiðbeina sínu fólki þannig að flæðið er mjög gottt, það myndast engir flöskuhálsar,“ segir Guðjón.
Von er á 13 vélum til viðbótar í dag, flestum síðdegis, en Guðjón er bjartsýnn á að skimunarferlið jafnt sem greiðsluferlið muni ganga vel og örugglega fyrir sig.