Stysti fundurinn 1 mínúta

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, setti 150. löggjafarþingið 10. september.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, setti 150. löggjafarþingið 10. september. mbl.is/​Hari

Þingfundum 150. löggjafarþings var frestað í gær, 30. júní, en hafði þá staðið yfir frá 10. september. Alls var 131 þingfundur haldinn á 104 fundardögum og stóðu fundir í rúmar 672 klukkustundir eða að meðaltali í 5 klukkustundir og 8 mínútur.

Lengsti fundurinn stóð í 16 klukkustundir og 7 mínútur, en sá stysti varði aðeins í um eina mínútu. Lengst varumræðan um samgönguáætlun en hún stóð í 45 klukkustundir.

Af 253 frumvörpum sem fram voru lögð urðu 132 að lögum, 117 fengu ekki afgreiðslu, tveim var vísað til ríkisstjórnar en aðeins tvö voru felld. Þá voru 44 þingsályktunartillögur samþykktar, 112 óútræddar, ein afturkölluð, ein ekki samþykkt og ein fékk ekki afgreiðslu.

Ráðherrar svöruðu 312 óundirbúnum fyrirspurnum og haldnar voru 27 sérstakar umræður. Þá voru 635 fundir haldnir hjá fastanefndum þingsins.

Þingi hefur ekki verið slitið, en ráðgert er að það komi saman að nýju í lok ágúst til að ræða breytingar á fjármálastefnu vegna heimsfaraldursins auk þess sem til stendur að afgreiða frumvarp um hlutdeildarlán. Að því loknu verður þingi slitið en nýtt þing, hið 151., tekur til starfa 1. október.

mbl.is