Sveiflujöfnunarauki áfram 0%

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda sveiflujöfnunarauka í 0,0% áfram næstu 9 mánuði, en hann var afnuminn 18. mars í skugga kórónuveirunnar.

Nefndin gaf út yfirlýsingu í dag og í kjölfarið var gefið út ritið Fjármálastöðugleiki. Þar er farið yfir stöðuna í efnahagslífinu og er tónninn á heildina litið jákvæður. Eiginfjár- og lausafjárstaða stóru bankanna er sögð sterk og talin munu standast álagið vel.

Aðgerðir Seðlabankans undanfarna mánuði eru sagðar hafa aukið svigrúm banka til að styðja við heimili og fyrirtæki á erfiðum tímum, en engu að síður er í yfirlýsingunni áréttuð sú áhætta sem felst í slakara aðhaldi stjórntækja Seðlabankans, sem getur hækkað eignaverð og aukið líkur á að kerfisáhætta myndist í efnahagslífinu.

Því er varað við því að ef vaxtaumhverfið leiðir til óhóflegs skuldavaxtar þegar efnahagslífið tekur við sér, verður gripið til viðeigandi ráðstafana, sem munu að vonum felast í breytingum til fyrra horfs.

Mesti samdráttur í langan tíma

„Fjármálakerfið hér á landi stendur traustum fótum þrátt fyrir útbreiðslu COVID-19-farsóttarinnar. Efnahagsreikningar heimila og fyrirtækja hafa styrkst verulega á síðustu árum, með niðurgreiðslu skulda og hærri eiginfjárhlutföllum. Einkageirinn er því betur í stakk búinn en oft áður til að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin,“ segir í ritinu.

Fram kom í grunnspá Seðlabankans í maí að spáð væri 8% samdrætti í landsframleiðslu, sem yrði mesti samdráttur hérlendis í heila öld. Sú spá gildir enn, en til samanburðar var samdrátturinn 2009 6,8%. 

Talað er um í ritinu að dragist áhrif af farsóttinni á langinn muni það hafa neikvæð áhrif bæði á fjármálakerfið og heimili og fyrirtæki. „Farsóttin hefur ýtt verulega undir þá þróun sem hófst á síðasta ári, þegar samdráttur varð í ferðaþjónustu og þrengdi að aðgengi fyrirtækja að lánsfé vegna minni áhættuvilja fjármálafyrirtækja.“

Enn eru sannarlega blikur á lofti: „Stærstu útflutningsatvinnugreinarnar hafa orðið fyrir mikilli ágjöf og óvissa er um gjaldeyristekjur þjóðarbúsins. Mikill samdráttur blasir við í ferðaþjónustu og að óbreyttu er hætt við að gjaldþrotum í greininni muni fjölga umtalsvert á næstu mánuðum. Álverð hefur einnig lækkað og lokanir hafa leitt til erfiðleika í sölu sjávarafurða.

Atvinnustig hefur lækkað verulega og viðbúið er að atvinnuleysi nái áður óþekktum hæðum, enda eru þær þjónustugreinar sem mest verða fyrir högginu vinnuaflsfrekar. Verð á atvinnuhúsnæði hefur lækkað nokkuð en verð á íbúðamarkaði hefur enn lítið breyst.“

mbl.is