„Þetta er hörmulegt slys“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segist ekki í nokkrum vafa um að banaslysið á Kjalarnesi á sunnudaginn verði til þess að breyta verkferlum í vegamálum.

„Þetta er hörmulegt slys og mjög mikilvægt að það sé farið ofan í saumana á öllum þáttum sem þarna virðast hafa farið úrskeiðis. Það virðist vera augljóst að einhverra hluta vegna eru þessar aðstæður ekki nægilega öruggar og við getum aldrei gefið afslátt af umferðaröryggi. Þess vegna verður að fara ofan í verkferla,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.

Sigurður hefur fundað með Vegagerðinni vegna málsins og sömuleiðis verið í samskiptum við aðila sem stóðu að samstöðufundi vegna slyssins á dögunum. „Þar hef ég ítrekað það að við munum gera það sem gera þarf til að reyna að fyrirbyggja að svona gerist aftur,“ segir Sigurður.

Malbikið stóðst ekki kröfur

Ráðherra segir að verið sé að athuga hvaða þáttum var ábótavant. „Vegagerðin er á fullu í því og meðal annars hafa verið send sýni til Svíþjóðar af malbikinu. En það er líka ferlið. Það eru tveir aðilar þarna, það er annars vegar verktakinn sem sinnir verkinu og það þarf að kanna hvort þar sé allt eins og það á að vera, en hins vegar er það eftirlitsaðili sem hefur verið falið að hafa eftirlit með verkinu og þar þarf að kanna hvernig samskipti eftirlitsins við Vegagerðina eru, upplýsingagjöf og í þeim dúr,“ segir Sigurður.

Á veg­arkafl­an­um sem slysið varð á var nýtt mal­bik sem var afar hált og stóðst ekki kröf­ur Vega­gerðar­inn­ar, eins og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar hefur sagt. Sigurður Ingi segir að þó að verkið sé boðið út, sé það Vegagerðin sem er ábyrg sem veghaldari. „Þetta er boðið út með ákveðnum skilmálum, en eins og Vegagerðin hefur sagt er Vegagerðin veghaldari og ber ábyrgð sem slíkur og ég er ánægður með þá nálgun Vegagerðarinnar,“ segir Sigurður.

Tveir létust í slysinu. Þeir sem lét­ust þegar öku­tæk­i skullu sam­an voru ökumaður og farþegi á bif­hjól­i. Annað bif­hjól kom aðvíf­andi þegar árekst­ur­inn varð og missti ökumaður þess stjórn á hjól­inu og féll af því.

Ökumaður og farþegi bifhjóls létust í slysinu.
Ökumaður og farþegi bifhjóls létust í slysinu. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir
mbl.is