Aukið líf færist yfir Leifsstöð

Glaðlyndir leigubílstjórar í Leifsstöð bíða eftir farþegum sem koma nú …
Glaðlyndir leigubílstjórar í Leifsstöð bíða eftir farþegum sem koma nú til landsins í auknum mæli eftir opnun landamæranna um miðjan júní. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allt frá því að áhrif kórónuveirufaraldursins á alþjóðlegt ferðafrelsi komu fram af fullum þunga hefur verið tómlegt um að litast í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, eða Leifsstöð. Mannlausir gangar, tóm töskubelti og auð bílastæði er sú raunalega sýn sem tók við af annars iðandi flugstarfsemi.

Tímamót urðu sem kunnugt er 15. júní sl. þegar kerfisbundin skimun hófst við landamærin, sem opnaði raunhæfa möguleika á áætlunarflugi til og frá landinu. Nýtt líf hefur færst í Leifsstöð. Flugvélar og strokpinnar hafa tekið á loft.

Á tímabilinu 15. til 30. júní voru rúmlega 14 þúsund farþegar skimaðir í Leifsstöð, minnst um 700 og mest um 1.400 á dag. Enn er því svigrúm fyrir því 2.000 farþega marki sem nefnt hefur verið.

Skimun gengur vel

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins annast skimun í Leifsstöð. Tekið er á móti farþegum í 10 básum og tekur skimunin sjálf ekki nema 1-2 mínútur að skráningu lokinni, en um 30 starfsmenn koma að ferlinu þegar mest lætur. Í samtali við Jórlaugu Heimisdóttur verkefnisstjóra í Morgunbaðinu í dag kemur fram að verkefnið hafi gengið vel og að farþegar „taki þessu ótrúlega vel“. Mikil áhersla er lögð á forskráningu sem skilar sér í því að „fólk veit hverju það á von á“ við komuna til landsins. Nær engin brögð eru að því að farþegar afþakki skimun og kjósi sóttkví þess í stað.

Þrátt fyrir góðan gang skimana sýna tölur að umferð um Keflavíkurflugvöll er ekki svipur hjá sjón miðað við venjulegt árferði. Á heimasíðu Isavia eru skráðar 346 komur og brottfarir áætlunarflugs um völlinn í júní, en á sama tíma í fyrra voru skráðar 8.353 hreyfingar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert