Dæmdar 8,3 milljónir vegna mistaka umboðsmanns

Umboðsmaður skuldara.
Umboðsmaður skuldara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjónum í kringum sextug voru í gær dæmdar um 8,3 milljóna bætur í héraðsdómi frá íslenska ríkinu vegna mistaka hjá umboðsmanni skuldara árið 2016. Hafði starfsmaður embættisins fyrir mistök talið skuldastöðu þeirra mun betri en hún í raun var og beðið þau um að undirrita beiðni um afmáningu veðréttinda þannig að veðskuldir umfram matsverð fasteignar þeirra voru ekki felldar niður.

Þá greiðir ríkið einnig gjafsóknarkostnað upp á 3,7 milljónir í málinu. Heildarkostnaður ríkisins vegna málsins er því um 12 milljónir.

Stóðu við greiðsluaðlögunarsamkomulagið

Hjónin fengu samþykkta greiðsluaðlögun árið 2014, en þar var meðal annars kveðið á um ráðstöfun og eftirgjöf krafna. Átti fólkið að greiða af veðkröfum sem stóðu innan matsverðs fasteignar þeirra á greiðsluaðlögunartímabilinu, en innan þess matsverðs rúmuðust veðkröfur Íbúðalánasjóðs á fyrstu fimm veðréttum eignarinnar og lítill hluti veðkröfu sjóðsins á sjötta veðrétti. Til viðbótar var krafa frá LÍN á sjöunda veðrétti sem var utan matsverðsins.

Eftir að hafa samið um greiðsluaðlögunina stóð fólkið við umsamdar greiðslur í 24 mánuði, en þegar kom að því að gera málið upp fékk starfsmaður umboðsmanns skuldara sent yfirlit frá Íbúðalánasjóði um stöðu áhvílandi lána. Mismunandi upphæðir voru tilgreindar annars vegar í tölvupóstinum og hins vegar í viðhengi. Í tölvupóstinum var staða tiltekins láns sögð 1,5 milljónir, en í viðhenginu var staðan skráð 9,7 milljónir.

Póstur starfsmanns umboðsmanns byggði á röngum upplýsingum

Í dómi héraðsdóms kemur fram að starfsmaður umboðsmanns hafi vegna þessa talið að fasteign hjónanna væri ekki yfirveðsett og hafi því sent þeim tölvupóst og tilkynnt þeim að skilyrði afmáningar væri ekki uppfyllt. Var óskað eftir að þau myndu fylla út afturköllunareyðublöð og koma frumritum til umboðsmanns. Undirritaði fólkið afturköllunina og kom eyðublaðinu til umboðsmanns sem svo sendi það til sýslumanns.

Það var svo ekki fyrr en um ári síðar að eiginmanninum barst áminning frá LÍN, sem hafði verið helsta skuld umfram verðmat eignarinnar og hefði samkvæmt öllu átt að falla niður, að hann áttaði sig á að einhver mistök hefðu átt sér stað. Hafði hann í framhaldinu samband við umboðsmann skuldara og komu mistökin í ljós.

Umboðsmaður hafnaði að taka málið upp að nýju

Óskuðu hjónin eftir að umboðsmaður tæki málið upp að nýju en var hafnað um það þar sem lagaheimild skorti til endurupptöku. Leituðu þau því til umboðsmanns Alþingis sem komst að þeirri niðurstöðu að mistök hefðu orðið af hálfu umboðsmanns skuldara í málinu. Annars vegar hefðu rangar upplýsingar verið lagðar til grundvallar og hins vegar hefði embættið harmað það afdráttarlausa orðalag sem starfsmaður embættisins notaði þegar starfsmaðurinn beindi því til stefnenda að afturkalla beiðni sína.

Fóru þau því næst með málið fyrir héraðsdóm og fóru fram á bætur vegna þeirra tæplega 6 milljóna sem höfðu staðið umfram verðmat eignarinnar sem og vexti og gjöld sem höfðu bæst við upphæðina, en skuldir umfram verðmæti eignarinnar árið 2016 voru orðnar 8,3 milljónir.

Umboðsmaður skuldara taldi í málinu að ósannað væri að bótaskylda almennra skaðabótareglna um fjártjón væri fyrir hendi, þótt óumdeilt væri að starfsmanninum hafi orðið á mistök, bæði varðandi meðferð á upplýsingum um eftirstöðvar lána sem og þegar hann leiðbeindi hjónunum um afturköllun. Þá taldi umboðsmaður að ósannað væri að hjónin hefðu orðið fyrir tjóni vegna málsins og var meðal annars vísað til þess að verðmæti fasteignarinnar hefði frá 2016 hækkað.

Fellur undir reglur stjórnsýsluréttar

Dómari málsins tók ekki undir rök umboðsmanns og sagði að þar sem umboðsmaður væri ríkisstofnun, sem starfaði undir lögum sem þjónustan við hjónin hafi grundvallast á, félli stofnunin undir stjórnsýslu ríkisins og þótt hún hafi í umrætt sinn ekki farið með vald til að taka ákvörðun um rétt eða skyldu hjónanna hafi hér verið „engu að síður um að ræða aðkomu stofnunarinnar að meðferð stjórnsýslumáls sem um giltu málsmeðferðarreglur laganna og í öllu falli óskráðar reglur stjórnsýsluréttar um vandaða stjórnsýsluhætti“.

Þá segir í dóminum að umdeilt sé að mistök starfsmannsins hafi orðið til þess að hjónin drógu beiðni sína til baka og því hafi beiðnin aldrei komið til úrlausnar hjá sýslumanni sem var nauðsynlegt svo fallist yrði á hana með þeim réttaráhrifum að veðskuldir umfram veðmæti fasteignar yrðu afmáðar og felldar niður samkvæmt ákvæðum greiðsluaðlögunarsamningsins.

Telur dómurinn að þrátt fyrir óvissu um hver endanleg niðurstaða málsins hefði orðið hjá sýslumanni verði umboðsmaður skuldara að bera hallann af þeim vafa og því beri umboðsmaður skaðabótaábyrgð á umræddu tjóni. Fallist er á að ríkinu beri að greiða hjónunum 8,3 milljónir vegna málsins.

Dómurinn í heild sinni.

mbl.is