Greindist rúmri viku eftir komuna

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kona sem kom til landsins frá Albaníu fyrir um 10 dögum greindist með kórónuveiruna í fyrradag. Rúmlega eins árs gamalt barn hennar greindist með veiruna í gær. 

Þrjú ný smit greindust í gær. Tvö þeirra við landamæraskimun og eitt hjá Íslenskri erfðagreiningu, en eftir því sem fram kom í hádegisfréttum RÚV  er um rúmlega eins árs gamalt barn konu, sem greindist með veiruna í fyrradag, að ræða. 

Samkvæmt Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni hjá almannavörnum, þurfa mun færri að fara í sóttkví og skimun vegna þessa máls en í tengslum við hópsýkingu sem kom upp um síðustu helgi og rekja má til konu sem hingað kom frá Bandaríkjunum. Um það bil 10-15 manns eru í sóttkví vegna málsins. 

Eins og var með konuna sem kom frá Bandaríkjunum reyndist sýnataka neikvæð við landamæraskimun hjá konunni sem greindist í fyrradag. 

„Það hefur væntanlega verið það stutt frá smiti þegar sýnið er tekið á landamærunum að það hefur ekki verið komin nægilega mikil veira í hana til að mælast, það er ekki fyrr en einhverjum nokkrum dögum síðar,“ segir Víðir. 

„Það er einmitt þess vegna sem að sóttvarnalæknir hefur verið að fjalla um það hvort Íslendingar og þeir sem eru búsettir hér á landi eigi að fara í gegnum tvöfalt kerfi, sýnataka á flugvelli, sóttkví í 4-5 daga og svo aftur sýnataka, Það er bara verið að skoða núna hvort og hvernig það er framkvæmanlegt,“ segir Víðir, en fram kom á upplýsingafundi almannavarna í gær að sóttvarnalæknir hafi gert tillögu til heilbrigðisráðherra sem snýr að þessu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina