Hefði verið best ef foreldrar væru eftir heima

Víðir hefur áhyggjur af því að fólk sé farið að …
Víðir hefur áhyggjur af því að fólk sé farið að slaka of mikið á þegar kemur að sóttvörnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn almannavarna segir það tilgangslaust að hólfaskipta viðburði þegar samgangur sé á milli hólfa. „Það er bara einhver sýndarmennska að setja upp einhver hólf í smá tíma og svo blandast bara allir, þá er frekar hægt að sleppa þessu,“ segir Víðir. 

Fram kom á upplýsingafundi almannavarna í gær að Víðir hefði sent öllum lögreglustjórum landsins og umdæmis- og svæðislæknum sóttvarna minnisblað um uppskiptingu í sóttvarnahólf á samkomum þar sem fleiri en 500 koma saman. 

Almannavörnum hafa borist kvartanir síðustu daga þess efnis að skipuleggjendur hafi ekki tryggt að farið sé eftir nákvæmum fyrirmælum varðandi hólfin og að samgangur sé á milli hólfa. 

Víðir segir að of mikið sé um það að fólk leiti leiða til að fara framhjá markmiðinu með hólfaskiptingunni. 

Í fyrsta lagi hef ég persónulega miklar efasemdir um að það eigi að standa fyrir samkomum þar sem verið er að kalla saman það margt fólk að það þurfi yfirhöfuð hólfaskiptingu,“ segir Víðir í samtali við mbl.is. 

„Hólfaskiptingin kom upp sem lausn svo hægt væri að halda einhverja viðburði til að létta okkur lundina, svo að það þyrfti ekki að loka á allt. Okkur finnst allt of mikið um það að fólk sé að leita allra leiða til að fara framhjá meginmarkmiðinu með þessu. Þegar hólfin eru þannig upp sett að þú ert eina stundina í þessu hólfi og svo fimmtán mínútum seinna í öðru hólfi með öðru fólki, þá er það ekkert í anda þessara sóttvarnaráðstafana. Þarf raunverulega að halda alla þessa viðburði sem krefjast þess að maður setji upp einhverja hólfaskiptingu? Þegar maður skoðar hana betur og fylgist með framkvæmdinni spyr maður sig bara hvort þetta sé framkvæmanlegt, hvort það sé raunhæft að ætla þetta,“ segir Víðir. 

Mikið undir að allt gangi vel 

Víðir hefur áhyggjur af því að fólk sé farið að slaka of mikið á í sóttvörnum og hafi gleymt hvers vegna ráðstafanir eru gerðar. 

„500 manna viðmiðið er til þess að draga úr líkum á hópsmiti og gera okkur með einhverjum hætti mögulegt að ná utan um það ef að slíkt gerist. En þegar þú ert með mörg þúsund manns, eins og er núna á Akureyri, hvernig eigum við að ná utan um það ef það kemur einhver hópsýking upp á þessu svæði? Við erum ekki að setja þessi viðmið bara í einhverri sýndarmennsku, við erum að meina þetta og það þurfa að vera sóttvarnir í gangi núna. Viðmiðið er 500 manns og það að búa til einhverja viðburði þar sem skipulagið er að fá einhvern stimpil frá okkur því að menn eru með einhverja hólfaskiptingu sem er svo ekki merkilegri en svo að fólk er endalaust að blandast á milli hólfa, það bara gengur ekki. Ég held að menn séu bara farnir að sýna ábyrgðarleysi þegar við erum komin þangað,“ segir Víðir. 

Frá N1 mótinu sem stendur nú yfir á Akureyri.
Frá N1 mótinu sem stendur nú yfir á Akureyri. mbl.is/Þorgeir

Mikið er um íþróttamót barna á sumrin og núna um helgina fer N1 mótið á Akureyri meðal annars fram. 

Víðir segir að besta lausnin hefði verið að forráðamenn yrðu eftir heima og liðstjórar fylgdu liðunum á mótin. 

„Einfaldasta leiðin í þessu væri að það fylgdu tveir til þrír fullorðnir með hverju liði og það væri ekkert vandamál og það væri vel hægt að framkvæma þetta. Þetta snýst fyrst og fremst um þennan fjölda foreldra og systkina sem fylgir hverju einasta barni sem gerir það að verkum að það safnast saman svona fjöldi. Maður þarf kannski aðeins að hugsa fyrir hverja mótin eru. Ég veit það alveg sjálfur hvað það er ofsalega gaman að fylgja börnunum sínum á íþróttamótum en á þessu Covid-sumri held ég að það þurfi að hugsa um hagsmuni heildarinnar og láta mótin ganga fyrir börnin,“ segir Víðir. 

Frá N1 mótinu sem stendur nú yfir á Akureyri.
Frá N1 mótinu sem stendur nú yfir á Akureyri. mbl.is/Þorgeir

„Við höfum kannski ekki verið nógu skýr með það hvað við nákvæmlega meinum því fólk hefur greinilega ekki tekið það til sín. Það er mjög mikið undir að þetta gangi allt saman vel og þess vegna biðlar maður til þeirra sem þó eru núna komnir norður og eru að fara á þessi mót um land allt að fara varlega og hugsa um sína eigin ábyrgð, hvað þau geti gert til þess að takmarka það að þessi faraldur verði hérna áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert