Hlaut hæstu lokaverkefniseinkunn frá upphafi

Úlfur Bragi Einarsson.
Úlfur Bragi Einarsson. Ljósmynd/Aðsend

Úlfur Bragi Einarsson hlaut tíu í einkunn fyrir lokaverkefni sitt í bakkalárnámi í arkitektúr frá Listaháskóla Íslands (LHÍ) nýverið en um er að ræða hæstu einkunn sem gefin hefur verið fyrir lokaverkefni frá upphafi í arkitektúrsdeildinni.

Í verkefni sínu tókst Úlfur á við ímyndaðar aðstæður: hvernig Íslendingar gætu snúið sér í byggingalist ef allur innflutningur  til landsins yrði stöðvaður, en Úlfur segir að heimsfaraldurinn hafi fengið hann til að velta því fyrir sér að sú staða gæti raunverulega komið upp og þá þyrftu Íslendingar að reyna að bjarga sér.

Auk þess að vera arkitekt er Úlfur ljóðskáld og ber greinargerð verkefnis hans það með sér. Úlfur segist hugsa um arkitektúr á ljóðrænan hátt og einbeita sér að líðan fólks innan rýmis.

Hannaði þekkingarsetur

„Við fengum bókina Eyland eftir Sigríði Hagalín í hendurnar [í upphafi verkefnisins]. Í bókinni lokast Ísland frá umheiminum. Þá þurfum við að treysta á það sem við getum gert hér heima, bjarga okkur sjálf. Þetta þróaðist rannsóknarverkefni á byggingaraðferðum og byggingarefnum sem væri möguleg hægt að útbúa á Íslandi án þess að flytja neitt inn,“ segir Úlfur sem ætlar sér í meistaranám í arkitektúr við LHÍ í framhaldinu.

Verkefnið tók síðan þá stefnu að Úlfur hannaði þekkingarsetur fyrir byggingariðnað á Íslandi. Þar eru þrjú hús, fólk getur gist þar og fengið aðgang að því sem þar er að finna: efnisprufum, skýrslum um tilraunir, leiðbeiningum og ýmislegt sem byggingu húsa tengist.

„Svo er smíðaverkstæði þar sem þú getur æft þig á og fengið leiðbeiningar frá einhverjum sem veit meira. Hugmyndin var að hinn almenni borgari gæti komið á staðinn og fundið aðferðir til þess að byggja sér hús, hvar á landinu sem hann er. Þetta var miðað við það að allir þurfi að hjálpast að í svona erfiðum aðstæðum og safna saman þessari hópvitneskju sem Ísland býr yfir og býður upp á. Við erum orðin svo bundin innflutningi á Íslandi í öllu að ef eitthvað svona gerðist, sem við lentum næstum því í vegna COVID, þá er allt í lagi að hafa það á bak við eyrað hvernig við gætum bjargað okkur,“ segir Úlfur.

Fór aftur í tíma torfbæja

En gætu Íslendingar bjargað sér og haldið áfram að byggja mannvirki ef allur innflutningur myndi falla niður?

 „Við bjuggum á Íslandi áður en við gátum flutt neitt inn. Það sem ég gerði var að fara aftur í þann tíma, skoða hvernig við unnum þetta þá og reyndi að draga fram einhver gæði úr torfbæjum sem slíkum, svo reyndi ég að uppfæra timburstrúktúrinn inni í þeim til þess að reyna að auka gæðin aðeins inni í bæjunum.

Það voru aðferðirnar sem ég notaði við að byggja þekkingarsetrið en í setrinu sjálfu væri aðgangur að alls konar hugmyndafræði og verkferlum á bak við sjálfbyggingu húsa í öðrum löndum, til dæmis væri hægt að horfa til Norður-Rússlands, Alaska og Kanada.

Það eru mismunandi aðferðir á þessum stöðum eftir því hvað er hægt. Síðan er líka spennandi að prufa ný efni og rannsaka nýjar aðferðir. Eitt af því sem ég prófaði var að búa til pappír úr melgresi og þara og nota hann til að búa til milliveggi til að spara timbrið vegna þess að við búum ekki yfir miklum nytjaskógum á Íslandi.“

Sneiðmynd af vistaverum.
Sneiðmynd af vistaverum. Ljósmynd/Aðsend

COVID lán í óláni

Spurður hvort hann ætli að ganga lengra með þann grunn sem hann vann í meistaraverkefninu segir Úlfur:

„Ég er búinn að skrá mig í meistaranám í hönnun í LHÍ vegna þess að mig langar að halda áfram að skoða það sem tengst er því hvernig við miðlum upplýsingum í tengslum við [byggingu mannvirkja].“

Úlfur segir að verkefnið hafi verið umfangsmikið og önnin erfið. Fyrir hann hafi COVID þó verið lán í óláni.

„Það sem við ímynduðum okkur að gæti gerst er eiginlega að gerast.“

Spurður hvort ljóðskáldið Úlfur og arkitektinn Úlfur tengist segir hann:

„Ég hugsa á mjög ljóðrænan hátt og vinn þannig. Þetta var líka mjög erfitt vegna þess að ferlið var aldrei línulegt. Ég reyndi að gera því skil í greinargerðinni að þetta var allt í lausu lofti. Ég var inni í einhverju svona upplýsingaskýi og vissi ekkert hvað ég var að gera og reyndi að nota texta til þess að koma mér áfram og skýra hugsanir mínar. Ég hugsa eiginlega meira ljóðrænt. Ég hef mikinn áhuga á því hvernig fólki líður og hvernig það upplifir rými og aðstæður.“

Grunnmynd af verkstæði.
Grunnmynd af verkstæði. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is