Rannsókn í gangi en enn á frumstigi

Slysið varð á mánudaginn þegar bifhjól lenti framan á húsbíl. …
Slysið varð á mánudaginn þegar bifhjól lenti framan á húsbíl. Ökumaður og farþegi bifhjólsins létust. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Rannsókn rannsóknarnefndar samgönguslysa vegna banslyssins á Kjalarnesi í vikunni er á fullu, en er þó enn á frumstigi. Rannsakendur frá nefndinni hafa síðustu daga safnað gögnum í tengslum við slysið og vettvanginn. Þetta segir Sævar Helgi Lárusson, rannsóknarstjóri á umferðarsviði nefndarinnar.

Rannsóknarnefndin gerir eigin sjálfstæðu rannsóknir á slysum sem þessum, meðal annars óháð þeirri rannsókn sem Vegagerðin hefur farið í vegna þess malbiks sem var á veginum. Sævar segir að þrátt fyrir það fái nefndin gögn víða að, meðal annars frá Vegagerðinni til að fá sem víðasta sjónarhorn á það sem gerðist í þessu slysi sem öðru. Segir hann að hlutverk nefndarinnar sé að reyna eftir fremsta megni að komast að því sem gerðist.

Tvö létust í slysinu, Finnur Einarsson og Jóhanna S. Sigurðardóttir, en parið var á ferð á mótorhjóli þegar það kom inn á nýmalbikaðan veg á Kjalarnesi. Komið hefur fram að yfirlögnin hafi ekki uppfyllt skilyrði og var mun hálla á veginum en vænta mátti og kröfur eru gerðar um.

Hefur Vegagerðin meðal annars sent sýni úr malbikinu til Svíþjóðar og þá verður ný yfirlögn lögð á veginn.

mbl.is