Reyndi að taka nektarmyndir í búningsklefa kvenna

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur mánudaginn 29. júní.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur mánudaginn 29. júní. mbl.is/Þór

Maður sem var dæmdur fyrir blygðunarsemisbrot með því að hafa tekið, eða reynt að taka, myndir af þremur konum „sem voru naktar eða hálfnaktar í búningsklefa kvenna“ í Sundlaug Kópavogs hlaut fjögurra mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Brotið átti sér stað í maímánuði árið 2018 en þá hafði maðurinn verið að sinna þrifum í sundlauginni fyrir kærustu sína sem var starfsmaður hjá fyrirtæki sem annaðist þrif.

Maðurinn beindi síma sínum inn í búningsklefa kvenna að kvöldi til þegar fáir sundlaugargestir voru. Kona í klefanum varð vör við atvikið og náði tali af manninum og sá myndir í síma hans. Fjórar konur voru í búningsklefanum þegar hann tók myndirnar.

Endurræsti símann og eyddi gögnum

Daginn eftir fór forstöðumaður Sundlaugar Kópavogs á lögreglustöð og tilkynnti um meint kynferðisbrot mannsins. Maðurinn neitaði alfarið sök við yfirheyrslu og kvað konuna hafa borið sig röngum sökum.

Sími hans var gerður upptækur við rannsókn málsins en við skoðun kom í ljós að hann hafði verið endurræstur og öllum fyrri gögnum eytt. Fyrsta notkun hans var skráð 16. maí 2018 og ekki tókst að endurheimta eydd gögn.

Þrjár konur sem voru í klefanum þegar maðurinn beindi síma sínum þangað kærðu hann og framburður þeirra fyrir dómi var metinn stöðugur og einkar trúverðugur. Framburður mannsins var aftur á móti misvísandi og hann reyndi að komast hjá því að svara spurningum beint.

Áður hlotið dóm fyrir blygðunarsemisbrot

Maðurinn var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi í júní árið 2018 fyrir annað blygðunarsemisbrot en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið um tvö ár. Þar sem atvikið í Sundlaug Kópavogs gerðist áður en sá dómur var kveðinn upp bar dómara að „dæma upp refsingu þess dóms og gera ákærða refsingu í einu lagi sem samsvari þeirri þyngingu refsingarinnar sem kynni að hafa orðið ef dæmt hefði verið um öll brotin í fyrra málinu“.

Hæfileg refsing þótti vera fjögurra mánaða fangelsi. Þar sem um hegningarauka var að ræða, auk þess sem langt var liðið frá brotinu, var ákveðið að fresta fullnustu refsingarinnar og fellur hún niður eftir tvö ár ef maðurinn heldur almennt skilorð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert