Sólríkt og allt að 20 stiga hiti

Útlit er fyrir sólríkan og hlýjan dag á stórum hluta …
Útlit er fyrir sólríkan og hlýjan dag á stórum hluta landsins í dag. mbl.is/RAX

Sólríkt verður á stórum hluta landsins í dag og mun hiti ná allt að tuttugu stigum á Suðvesturlandi. Veðurstofan spáir norðlægri átt, 3-8 m/s og víða léttskýjuðu, en sums staðar þokulofti við sjávarsíðuna, einkum austan til. Hiti verður á bilinu 12 til 20 stig að deginum, hlýjast á Suðvesturlandi en 6 til 11 stig í þokulofti.

Undir kvöld snýr vindur sér til suðausturs og þykknar heldur upp um sunnanvert landið með stöku skúrum, en áfram bjart með köflum norðanlands.

Á morgun verður austanátt, víða 3-8 m/s en 8-13 við suðurströndina. Að mestu skýjað og sums staðar dálitlar skúrir en bjartviðri norðan til á landinu. Hiti 11 til 18 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is