Sumarfrí á Ströndum

Trommarinn Ingólfur Sigurðsson og Stefán Már Magnússon gítarleikari í góðum …
Trommarinn Ingólfur Sigurðsson og Stefán Már Magnússon gítarleikari í góðum gír. Ljósmynd/Mummi Lú

Helgi Björns og Reiðmenn vindanna hafa átt sviðið síðan samkomubannið vegna kórónuveirunnar var sett á um miðjan mars, en hlaða nú batteríin fyrir næstu törn, sem hefst um verslunarmannahelgina. „Ferðalagið hefur verið ótrúlega skemmtilegt en næst á dagskrá er sumarfrí með fjölskyldunni í Reykjarfirði á Ströndum,“ segir Stefán Már Magnússon gítarleikari.

Stefán ólst upp í tónlist og hefur spilað með Helga Björns undanfarin 17 ár. Hann er vanur tarnavinnu en segir að undanfarinn mánuður hafi verið sérlega skemmtilegur. „Alltaf er gaman að fá tækifæri til að ferðast um landið, koma á þessa fallegu staði og hitta þetta góða fólk sem þar er.“

Eftir að ákveðið var að slá í sjónvarpsþátt hjá Sjónvarpi Símans í mars lá ekkert annað í loftinu, en þátturinn hitti algerlega í mark og hélt áhorfendum og hlustendum við efnið. „Viðtökurnar við þáttunum komu skemmtilega á óvart,“ segir Stefán um tímabilið. „Í raun var aldrei planið annað en að vera með einn þátt en þegar við vorum að ganga frá dótinu fór síminn að hringja og við vorum beðnir um að bíða með að taka saman hljóðfærin. Hugsanlega yrði framhald á.“

Þáttaröðin „Heima með Helga“ var sjö laugardagskvöld í röð. „Gott var að finna hvað fólki fannst þetta gefandi og á ferð okkar um landið hittum við marga sem komu til okkar og þökkuðu fyrir framtakið. Það var frábært að finna stuðninginn.“

Nóg að gera

Eftir að slakað hafði verið á samkomubanninu í maí fyllti hópurinn Hlégarð í Mosfellsbæ tvær helgar í röð áður en haldið var í mánaðartúr um Vestfirði, Norðurland og Austfirði, þar sem uppselt var á 14 tónleika á 30 dögum, síðast í Valaskjálf á Egilsstöðum síðastliðið laugardagskvöld. Stefán segir að allt hafi gengið eins og í sögu og viðtökurnar verið frábærar. „Þetta var sannkallað draumaferðalag um landið.“

Tónleikarnir voru skipulagðir eins og sjónvarpsþættirnir og gestasöngvarar komu fram á hverjum stað. „Við tókum með okkur veggteppi og lampa og ýmsan búnað til að skreyta sviðið,“ upplýsir Stefán.

Hópurinn byrjar aftur um verslunarmannahelgina, svo verða fernir tónleikar í Háskólabíói síðustu helgina í ágúst og ný þáttaröð, „Það er kominn Helgi“, hefst hjá Sjónvarpi Símans í október. „Útlitið var ekki bjart í mars og mér leist ekki á blikuna en allt hefur spilast upp í hendurnar á okkur og ég hef meira en nóg að gera.“ Í því sambandi nefnir Stefán að eiginkonan Edda Björg Eyjólfsdóttir leikkona fari í kvikmyndatöku um miðjan júlí og hann spili í leikritinu Kardemommubænum, sem verður tekið til sýninga í Þjóðleikhúsinu í haust. „Ég tek þátt í tónleikum með Mannakornum í Bæjarbíó í Hafnarfirði 14. júlí og faðir minn, Magnús Eiríksson, verður 75 ára í ágúst. Afmælistónleikar af því tilefni verða haldnir í Háskólabíó 5. september og ég vonast til að fá að taka þátt í þeirri veislu.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. júlí. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert