Tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir nauðgun

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann um þrítugt í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga konu á heimili hennar í Kópavogi árið 2016. Þá var hann dæmdur til að greiða konunni þrjár milljónir króna í miskabætur og allan málsvarnarkostnað.

Maðurinn, Þröstur Thorarensen, er dæmdur fyrir að haft samræði við konuna þar sem hún lá sofandi í rúmi sínu en hún gat ekki spornað við því sökum svefndrunga og ölvunar. Hún hafi beðið hann að hætta en hann ekki gert það heldur þvingað hana til áframhaldandi maka.

Í dómnum er rakið hvernig konan hugðist í fyrstu ekki kæra brotið en hún lét þó bóka atburðarás kvöldsins í dagbókarfærslu hjá lögreglu í desember 2017 til þess að þetta yrði skráð ef fleiri stúlkur myndu tilkynna brot af hálfu ákærða. Hún ákvað síðar sumarið 2019 að leggja fram kæru.

Meðal gagna sem lögð voru fram var læknisvottorð frá geðlækni, sem konan sótti ellefu sinnum, en þar kemur fram að málflutningur konunnar hafi verið trúverðugur, hún sýnt einkenni áfallastreituröskunar og upplifað truflandi minningar og sterka andlega vanlíðan. Þá hafði konan mætt átta sinnum til ráðgjafar hjá Stígamótum.

mbl.is