„Ekkert annað en ofbeldi“

Feðgarnir Gunnar Einar Steingrímsson og Steingrímur Ingi Gunnarsson.
Feðgarnir Gunnar Einar Steingrímsson og Steingrímur Ingi Gunnarsson. Ljósmynd/Aðsend

Prestssonur í Laufási í Eyjafirði fékk á dögunum heldur óskemmtilega sendingu í póstkassann. Í skeytinu var honum, Steingrími Inga Gunnarssyni, sagt að annaðhvort fara úr bænum, þangað sem hann er nýfluttur, eða „drepa sig.“ 

Bréfið var nafnlaust.
Bréfið var nafnlaust. Ljósmynd/Facebook

Þrátt fyrir óvægin orð í sinn garð er Steingrímur hinn rólegasti, þó að auðvitað finnist engum skemmtilegt að fá svona póst. Hann er nýfluttur til Íslands frá Noregi þar sem hann hefur búið í átta ár. Hann hefur ekki verið fórnarlamb eineltis heldur er hann félagslyndur og á góða vini og kunningja.

Hann kemur því hálfpartinn af fjöllum. Hann er að spila fótbolta fyrir norðan og „ef þetta er tengt boltanum þá er ég greinilega að gera eitthvað rétt, fyrst einhverjum þykir honum ógnað,“ hefur faðir Steingríms eftir honum, presturinn. Hann heitir Gunnar Einar Steingrímsson og þjónar Laufási í Eyjafirði.

Einelti af verstu sort

Gunnar taldi mikilvægt að segja frá bréfsendingunni, segir hann í samtali við mbl.is. „Einelti þrífst best í þögninni og með því að gera það sýnilegt og láta vita, berjumst við gegn því. Ég birti þetta ekki til þess að finna út hver hefði verið að verki, heldur aðallega til þess að viðkomandi geti fengið hjálp, því greinilega líður þeim illa sem sendir svona,“ segir Gunnar.

„Einelti af verstu sort,“ skrifaði Gunnar í samfélagsmiðlafærslu um sendinguna, sem hefur vakið mikil viðbrögð. „Að sjálfsögðu bjóst ég ekki við svona mikilli athygli og viðbrögðum en þetta sýnir að það eru allir sammála um að svona sé ekki í lagi. Við líðum ekki að fólk gangi um götur og berji annað fólk og á sama hátt getum við ekki látið þetta viðgangast, enda er þetta ekkert annað en ofbeldi af sama meiði, þó að þetta sé ekki jafnsýnilegt,“ segir Gunnar við mbl.is. 

Pósturinn kom inn um lúguna til fjölskyldunnar frímerktur og Gunnari er í lófa lagið að finna út hver sendandinn var. Hann segir það þó ekki aðalmálið, heldur mun frekar að vekja athygli viðkomandi á að svona verði ekki liðið. Hann segir Steingrím son sinn þá sömuleiðis heldur kenna í brjósti um viðkomandi en að vilja ná fram hefndum.

mbl.is