Staðfest að engar tilslakanir verða fram til 26. júlí

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, eftir tillögu sóttvarnalæknis, að halda takmörkun á samkomum óbreyttri í þrjár vikur og mun hún því gilda til 26. júlí. Miðast fjöldatakmörkunin því áfram við 500 manns. Afgreiðslutími spilasala og veitingastaða með vínveitingaleyfi verður einnig óbreyttur og heimilt verður að hafa opið til klukkan 23 á kvöldin. Íslendingar sem koma til landsins munu þurfa að fara í sóttkví við komuna til landsins en ferðamenn ekki.

Áður hafði verið áformað að lengja afgreiðslutímann og hækka fjöldatakmörkin upp í 2.000 manns.

Í tilkynningu ráðherra, sem tekur mið af stöðu mála 2. júlí, kemur fram að frá því að skimanir hófust á landamærunum 15. júní sl. hafi um 22.000 ferðamenn komið til landsins og sýni hafi verið tekin hjá um 16.000 manns. Virk smit hafi greinst hjá sjö einstaklingum og rúmlega 400 manns hafi þurft að fara í sóttkví eftir smitrakningu.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sagt að ákveðið bakslag hafi komið upp eftir að innanlandssmit greindist í lok síðasta mánaðar. Það hafi þó ekki verið óvænt, en lágmarka þurfi áhættuna á því að faraldurinn nái sér aftur á strik hér á landi.

Sem fyrr verður hægt að velja á milli 14 daga sóttkvíar eða skimunar á landamærum en gert er ráð fyrir að einstaklingar úr fyrrnefndum hópi sem velja skimun þurfi að fara aftur í skimun 4-5 dögum eftir komuna til landsins og vera í sóttkví þar til niðurstaða seinni sýnatökunnar liggur fyrir.

Sóttvarnalæknir telur að tilvik sem þessi skapi hættu á hópsmitum og þá sérstaklega þegar í hlut eiga einstaklingar með stórt tengslanet hér á landi. Þess vegna leggur hann til að breyttar reglur um skimun taki ekki til almennra ferðamanna heldur verði bundnar við íslenska ríkisborgara og aðra sem eru búsettir hér á landi. Tekið er fram að ekki verði krafist greiðslu vegna seinni sýnatökunnar af þeim sem þurfa að fara í tvær sýnatökur.

mbl.is