Fimm ný smit í gær

mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Fimm ný kór­ónu­veiru­smit greind­ust í gær, þrjú innanlandssmit og tvö við landamæraskimun. Alls eru 13 virk smit hér á landi og fjölgar um þrjú frá því í gær. Sjö þeirra sem eru með virk smit komu erlendis frá. Fólki í sótt­kví fækkar örlítið, úr 440 í 438.

Þetta kem­ur fram á Covid.is. Í upphaflegum tölum sem uppfærðar voru klukkan 11 kom fyrst fram að ekkert smit hefði greinst við landamæraskimun en hið rétta er að þau eru tvö. Beðið er eftir niðurstöðum úr mótefnamælingu og eru viðkomandi í einangrun á meðan, að því er segir í tilkynningu frá sóttvarnalækni og almannavörnum. 

Þegar var búið að greina frá innanlandssmitunum þremur síðdegis í gær en þau tengjast konu sem kom frá Albaníu fyrir ellefu dögum og greindist með kórónuveiruna fyrir þremur dögum. Rúmlega ársgamalt barn hennar hefur einnig greinst með veiruna. 

Alls hafa 34 já­kvæð sýni greinst við landa­mæra­skimun frá 15. júní. Sjö þeirra ein­stak­linga sem reynst hafa já­kvæðir eru smit­andi, 25 eru það ekki og beðið er eft­ir niður­stöðum frá tveim­ur. 

1.778 sýni voru tek­in við landa­mæra­skimun í gær og hafa aldrei verið fleiri, 88 á sýkla- og veiru­fræðideild Land­spít­al­ans og 73 hjá Íslenskri erfðagrein­ingu.

Frá því að fyrsta smitið greindist hér á landi 28. febrúar hafa 1.855 smit verið staðfest.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert