Lagfæringar kosta nær 100 milljónir

Verið er að gera ráðstafanir til að tryggja að vegurinn …
Verið er að gera ráðstafanir til að tryggja að vegurinn sé öruggur.

„Við höfum verið að viðnámsmæla og fara ofan í saumana á öllum þeim köflum sem framkvæmdir voru af viðkomandi verktaka. Þetta eru í það heila fimm svæði sem eru undir,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar. Vísar hún í máli sínu til viðgerða sem nauðsynlegar eru í kjölfar banaslyssins á Vesturlandsvegi um Kjalarnesi. 

Alls voru fimm svæði unnin af sama verktaka og eru þau nú öll til skoðunar. Nú þegar hafa hálkuverjandi aðgerðir verið gerðar á á Vesturlandsvegi. Var malbikið hitað upp og í það dreift salla. Vegurinn verður í framhaldinu undir sérstöku eftirliti fram á mánudag þegar malbikað verður að nýju. Að sögn Bergþóra var illframkvæmdanlegt að malbika um helgina þegar umferðin úr bænum er mjög þung. 

Aðrir kaflar, þar sem sýnt þótti að viðnámi var ábótavant, voru fræstir í gær og verða malbikaðir við fyrsta tækifæri. Þetta eru vegkaflar við Sæbraut nærri Laugarásbíói, Bústaðaveg við Veðurstofu Íslands og Reykjanesbraut við Vífilsstaði. Spurð hver kostnaður vegna þess kann að vera segir Bergþóra að upphaflegur kostnaður hafi verið í kringum 94 milljónir króna. 

94 milljón króna kostnaður

Ekki má telja ólíklegt að kostnaður vegna viðgerða verði sambærilegur. „Við erum ekki komin svo langt ennþá en samningurinn við verktakann var upp á 94 milljónir króna. Það er svona stærðargráðan á þessu. Nú er verið að ræða við viðkomandi verktaka og skoða okkar mál,“ segir Bergþóra. 

Spurð hvort framangreindar viðgerðir kunni að fresta öðrum framkvæmdum segir Bergþóra ómögulegt að spá fyrir um það. „Við erum að vinna þessa vinnu er snýr að því að ná utan um þessi mál. Fyrsta verkið undir öllum kringumstæðum er að ná tökum á þessum köflum,“ segir Bergþóra. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert