Rithöfundasambandið vantreystir Storytel

Karl Ágúst Úlfsson, formaður Rithöfundasambands Íslands.
Karl Ágúst Úlfsson, formaður Rithöfundasambands Íslands. Ljósmynd/Valgarður Gíslason

Stjórn Rithöfundasambands Íslands lýsir áhyggjum sínum af kaupum Storytel AB á 70% hlut í Forlaginu, stærsta útgáfufyrirtæki landsins.

Þetta segir í nýrri ályktun stjórnarinnar. Þar segist hún vantreysta sænska félaginu og stjórnendum þess. Reynsla höfunda af dótturfélagi þess á Íslandi sé ekki góð og sömu sögu megi heyra frá félögum sambandsins á hinum Norðurlöndunum.

Óttast að markmiðið sé að eyða samkeppni

„Samkvæmt kjarakönnun sem Rithöfundasambandið hefur gert meðal félagsmanna sem eiga verk hjá Storytel á Íslandi eru greiðslur til þeirra afar lágar og tekjumódelið ógegnsætt. Stjórnin óttast að tilgangur eiganda Storytel á Íslandi, Storytel AB í Svíþjóð, sé að komast nær höfundaverki íslenskra höfunda og eyða allri samkeppni á hljóðbókamarkaði.“

Tekið er fram að margir félagsmenn hafi haft samband við stjórn og skrifstofu sambandsins og viðrað áhyggjur sínar.

„Höfundar og útgefendur ytra hafa borið því vitni að frelsi þeirra og menningarleg áhersla hafi beðið hnekki með eignarhaldi Storytel AB. Slíkt vekur ugg í brjósti höfunda hér á landi, sporin ytra hræða, en reynslan ein mun leiða í ljós hvort sama öfugþróun verði hérlendis,“ segir í ályktuninni.

Ekki sé litið á bókmenntir sem framleiðsluvöru

„Komi upp slík staða á Íslandi telur stjórn RSÍ sýnt að hún myndi þrengja verulega að höfundum og möguleikum þeirra til útgáfu á fjölbreyttum og burðugum bókamarkaði. Aldrei má vega að listrænu frelsi þannig að litið sé á bókmenntir sem framleiðsluvöru sem þarf að skila hagnaði en ekki listræna tjáningu sem hefur gildi í sjálfu sér.“

Stjórnin segist fagna nýrri tækni og auknum tækifærum fyrir lesendur til að njóta bókmenntaverka.

„Flestir rithöfundar vilja líka sækja fram á því sviði og ná til nýrra lesenda. Hins vegar hefur stjórnin áhyggjur af enn meira valdaójafnvægi á bókamarkaði ef kaupin ganga í gegn þar sem stærsta bókaútgáfa landsins og eina streymisveita hljóðbóka verði í eigu sama aðila.

Samruni stórra aðila á markaði leiðir iðulega til skerðingar á virkri samkeppni sem kemur neytendum og öðrum á markaði illa. Þegar um er að ræða fákeppni á sviði menningar verður að stíga sérstaklega gætilega til jarðar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert