Hámarkshraði lækkaður á fjórum götum

Gangbrautin yfir Ægisgötu við Ránargötu verður nú skilgreind sem slík. …
Gangbrautin yfir Ægisgötu við Ránargötu verður nú skilgreind sem slík. Hámarkshraði helst þó óbreyttur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur hefur samþykkt að lækka hámarkshraða á fjórum íbúagötum úr 50 km/klst. í 30 km/klst. Göturnar sem um ræðir eru Reykjavegur milli Sigtúns og Kirkjuteigs, Sundlaugavegur milli Laugalækjar og Laugarásvegar, Engjateigur og Lokinhamrar.

Þá var jafnfram samþykkt að merkja sex gönguþveranir sem gangbrautir: yfir Ægisgötu við Pétursbúð, yfir Reykjahlíð við Eskihlíð, yfir Smárarima sunnan leiðar að húsum nr. 24-38, yfir Reykjaveg sunnan Hrísateigs, yfir Hverfisgötu við Frakkastíg og yfir Hverfisgötu við Barónsstíg. Allar eiga gönguleiðirnar sammerkt að hafa verið gangbrautir í almennum skilningi án þess að vera opinberlega skilgreindar og merktar sem slíkar.

Jafnframt er unnið að uppsetningu fimm snjallgangbrauta, en tillaga sjálfstæðismanna þess efnis var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á fundi borgarstjórnar í fyrra. Í tillögunni kemur fram að um sé að ræða tæknibúnað sem skynjar þegar gangandi vegfarendur nálgast gangbraut og kveikir þá LED-götulýsingu, sem sett er upp þannig að einungis gangbrautin og sá sem fer yfir verða lýstir upp. Einnig kviknar lýsing í gangbrautarmerkinu og viðvörunarljós fyrir akandi umferð. Verða þessar gangbrautir settar upp við umferðargötur á gönguleiðum skólabarna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert