„Líkur á skúrum í höfuðborginni

Það verður skýjað með köflum um allt land en líkur …
Það verður skýjað með köflum um allt land en líkur á vætu í höfuðborginni og á Vesturlandi. Kort/Veðurstofa Íslands

Það verður austlæg eða breytileg átt 3 til 8 m/s, en 8 til 13 m/s sekúndu með suðurströndinni. Skýjað með köflum um allt land en „líkur á skúrum í höfuðborginni,“ segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is. Það eru einnig líkur á vætu um Vesturland en bjartviðri á Norður- og Austurlandi en sums staðar þokubakkar austan til.

Hiti verður á bilinu 9 til 12 stig á höfuðborgarsvæðinu en 10 til 18 stig um landið allt. Hlýjast í innsveitum Norðurlands.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að á morgun sé útlit fyrir norðlæga átt með kólnandi veðri norðan til á landinu, en bjartviðri og hita að 17 stigum um sunnanvert landið.  

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:
Norðlæg átt, 5-10 m/s en 8-13 með austurströndinni. Bjartviðri sunnan- og vestanlands, en sums staðar dálitlar skúrir síðdegis. Hiti 12 til 17 stig. Skýjað um landið norðanvert með hita 6 til 11 stig.

Á mánudag:
Norðlæg átt, 3-10 m/s, hvassast austan til. Lítils háttar væta á Norður- og Austurlandi með hita 6 til 10 stig, en bjartviðri sunnan heiða og úrkomulítið, og hita að 18 stigum yfir daginn.

Á þriðjudag:
Hæg breytileg átt, skýjað með köflum og líkur á skúrum í flestum landshlutum, einkum síðdegis. Hiti 8 til 15 stig.

Á miðvikudag og fimmtudag:
Útlit fyrir fremur hæga norðlæga átt. Skýjað og einhver væta norðaustanlands, en annars bjart að mestu og þurrt. Hiti frá 6 stigum við norðausturströndina, upp í 18 stig á Suður- og Vesturlandi.

Á föstudag:
Líkur á hægri vestlægri átt. Skýjað en þurrt að kalla vestan til annars bjartviðri. Hiti breytist lítið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert