„Þú ert nóg“

„Við þurfum e.t.v. að fara huga að „afsjúkdómavæðingu“,“ segir Héðinn …
„Við þurfum e.t.v. að fara huga að „afsjúkdómavæðingu“,“ segir Héðinn Unnsteinsson um geðheilbrigðiskerfið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar, segir kominn tíma á afsjúkdómavæðingu geðheilbrigðiskerfisins sem mótvægi við þeirri gífurlegu fjölgun greininga sem hefur átt sér stað undanfarna áratugi. Þá þurfi að endurskoða lögræðislögin.

Árið 1994 fór Héðinn í oflæti. Þá fékk hann greiningu: Geðhvörf. „Það er upp úr því sem ég byrja að skipta mér af geðheilbrigðismálum. Ég skrifaði bækling með geðlækni um nefnda geðröskun sem kom út árið 1995. Ég fylltist mikilli löngun til að hafa áhrif á skoðun, skilning, afstöðu og ákvarðanir í málaflokknum. Mér fannst ég ekkert frábrugðnari mínum félögum þótt ég hafi upplifað þetta ástand.“

Á þessum tíma fann Héðinn fyrir miklum fordómum vegna veikinda sinna. „Helmingur kunningja hætti að tala við mig. Það voru fordómar og mismunun á grundvelli engra hlutlægra raka.“

Aðeins ein alþjóðleg rannsókn hefur verið gerð á fordómum á gagnvart einstaklingum sem glíma við geðrænar áskoranir á Íslandi. Hún fór fram á árunum 2006 og 2007 og voru niðurstöðurnar birtar 2009. Þar komu í ljós umtalsverðir fordómar. Héðinn segir þörf á nýrri rannsókn.

Annað sem stuðaði Héðinn voru útgjaldaliðir heilbrigðiskerfisins. „Aðalliðirnir eru meðferð og endurhæfing. Þeir fá um 97% af heildarútgjöldum til heilbrigðismála. Þetta er heilbrigðiskerfið okkar en þetta er í raun veikindakerfi.“ Því er ekki unnið eins mikið með orsakir og þörf er á. „Við erum mjög afleiðingatengd. Við erum oft að takast á við afleiðingar í stað þess að vinna með orsakaþætti.“

Gríðarleg fjölgun greininga

Um 150 ár eru liðin síðan fyrst var byrjað að greina geðsjúkdóma. Þá voru þeir sex talsins. Síðan þá hefur þróunin verið sú að greina sífellt fleiri með geðsjúkdóm. Handbók Sambands bandarískra geðlækna (DSM) sem síðast kom út árið 2013 (DSM-5) inniheldur um 600 greiningar í heild, að sögn Héðins.

Hann setur spurningarmerki við að hægt sé að greina svo marga sjúkdóma þegar það er í raun engin hutlæg leið til þess; öll greining sé huglæg. „Það er engin röntgenmynd, engin þvagprufa eða blóðprufa. Það er ekkert hlutlægt. Svolítið eins og að ætla sér að vigta eitt kílógramm af efni með loftvog.“

Markaðs- og fjármagnsöflin hafa hagsmuni af því að sem flestir glími við ójafnvægi – séu skilgreindir veikir. Það myndast því þversögn þar sem markmið kerfisins er að fólk nái bata en ákveðinn hvati er til að halda fólki veiku. Því virðast fleiri og fleiri falla undir hatt geðsjúkdóma enda huglægt mat hver það geri. Héðinn segir gífurlega fjármuni í geðlyfjaiðnaðnum sem skapi að hluta þennan hvata.

Sjúkdómavæðing venjulegs lífs kemur í kjölfar þessa. „Sorg er orðin geðröskun; „bereavement disorder“. Það er orðin ofboðsleg fjölgun greininga. Meira að segja æðsta „kardinála“ og ritsjóra DSM-4, Allen Francis, féll allur ketill í eld er DSM-5 var í þróun og skrifaði bókina Saving Normal gegn sjúkdómavæðingu geðsins. Við þurfum e.t.v. að fara huga að „afsjúkdómavæðingu“.“

Opin fyrir breytingum

Héðinn vill að snúið verði við þeirri þróun að einblínt sé í sífellt meira mæli á hvað skilji okkur að. Að það þurfi að greina fleiri og fleiri með geðvandamál. „Það er áhugverð rannsókn í gangi núna hjá hollenskum lækni sem heilbrigðisráðuneytið og landlæknisembættið hafa gert samning við um tilraunaverkefni í Reykjavík og á Austurlandi. Hún er að heilsugreina fólk og því búin að snúa kerfinu að hluta við. Kerfið hennar snýst um styrkleika þína, þeir eru greindir en ekki einkenni ójafnvægis.

Ég held að þessi þróun sé mjög áhugaverð. Það mun aldrei verða annaðhvort eða. Það mun líklega verða hvort tveggja. Ef unnið er meira með styrkleika þá verður ekki þessi hvati að fara beint í greiningu á vandamáli. Það mun taka langan tíma að breyta þessu. Þetta er svona eins og að snúa olíuskipi. Það eru svo miklir hagsmunir í þessu kerfi og þetta er svo löng saga.“

Má beita nauðung?

Héðinn er ekki hrifinn af því viðhorfi að þeir sem glími við geðraskanir séu ofbeldisfyllri en aðrir. „Það eru engar rannsóknir sem sýna fram á þetta.“

Lögræðislögin kveða á um nauðung og þvingun frjáls manns á sjúkrahúsi. Réttlæting þess er í grunninn komin frá breska heimspekingnum John Stuart Mill sem sagði að það væri í lagi að svipta einstakling frelsi sínu, þótt hann hafi ekkert gert af sér, ef hann er hættulegur sjálfum sér eða öðrum. „En hver ætlar að meta það? Þetta „skaðalögmál“ grundvallar alla löggjöf Vesturlanda. Læknum var gefið það vald að geta úrskurðað eða ákveðið hver er hættulegur sjálfum sér eða öðrum.“

Í dag hefur lögunum verið breytt að einhverju leyti og faglegra ferli að baki frelsissviptingu en vandamálið stendur eftir: Hægt er að svipta fólk frelsi með geðþóttaákvörðun. Þetta vill Geðhjálp hafa áhrif á. „Þetta er grafalvarlegt mál.“

Héðinn vill að prófað verði að beita ekki nauðung eða þvingun í kerfinu hér á landi í þrjú ár, þvingunarlaust Ísland, og sjá hver árangurinn verður. „Þá verður talað á fjölda ráðstefna 10 eða 20 ár fram í tímann um hvað Ísland hafi gert frábæra hluti hérna. Af hverju má ekki setja þetta fram sem tilraunaverkefni?“

Allt eins og það á að vera?

Undir lokin fer samtalið yfir á heimspekilegri nótur. Naumhyggju ber á góma í tengslum við loftslagsmál sem hefur beina skírskotun í peningaöflin sem að miklu leyti stjórna geðlyfjaiðnaðnum sem dæmi. Þar vilji menn að neytt sé meira. En kannski er svarið að neyta minna.

Héðinn veltir því upp að Alda Karen Hjaltalín hafi líklega haft rétt fyrir sér þegar hún stóð fyrir fullum sal og sagði: „Þú ert nóg.“ Heimurinn er svo fullur af upplýsingum og stöðusamanburði að kannski er bara best að kúpla sig út, eins og sífellt fleiri reyna að gera í dag.

Íslendingar eru gjarnir á samanburð, segir Héðinn. Við erum upptekin af því að vinna. Okkur vantar ytri viðurkenningu. „Ég hef brunnið fyrir það lengi að hafa áhrif á heiminn. Farið út um allt til þess. Á endanum snýst þetta ekki um þig. Kannski hafði Voltaire rétt fyrir sér í lok Birtings, er ekki allt eins og það á að vera?“

Viðtalið við Héðinn má finna í heild sinni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »