Veittist að manni með hníf á skemmtistað

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti mörgum útköllum í gærkvöldi og í …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti mörgum útköllum í gærkvöldi og í nótt. mbl.is/Eggert

„Þónokkur erill“ var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 17:00 í gær til 05:00 í morgun. Tveir voru handteknir með hníf en flest verkefni lögreglunnar snerust um að sinna útköllum vegna hávaða í heimahúsum en þau voru á annan tug. Alls voru 88 mál bókuð á tímabilinu.

Rétt fyrir miðnætti í gær var lögregla kölluð út vegna manns með hníf sem reyndi að veitast að öðrum manni á skemmtistað í miðborginni. Hann reyndi svo að komast undan þegar lögregla kom á staðinn en var yfirbugaður af lögreglumönnum sem beittu varnarúða. Hann var vistaður í fangageymslu.

Skömmu áður hafði lögregla þurft að hafa afskipti af manni í annarlegu ástandi sem grunaður var um þjófnað í miðborg Reykjavíkur. Hann reyndi að komast undan þegar lögreglumenn bar að garði og streittist á móti handtöku. Hann reyndist vera með hníf í buxnavasa og var vistaður í fangaklefa.

Þjófnaður, innbrot og líkamsárásir

Þrisvar var lögregla á stöð 1 (Austurbær – miðbær – Vesturbær – Seltjarnarnes) kölluð til vegna þjófnaðar eða tilraun til þess. Einn maður tók farsíma úr afgreiðslu fyrirtækis en starfsmenn sáu til hans og eltu hann uppi. Við handtöku hans kom í ljós að hann var með fleiri muni á sér sem hann gat ekki gert grein fyrir. Það var talið þýfi.

Einnig var tilkynnt um þjófnað á eigum gests á veitingahúsi og um þjófnað í verslun. Þá var tilkynnt um tvö innbrot, eitt í heimahúsi og hitt í fyrirtæki þar sem verðmætum var stolið.

Austurlega í Reykjavík var tilkynnt um tvö innbrot, eitt í geymslu í fjölbýlishúsi þaðan sem reiðhjóli var stolið og annað var inn í íbúðarhúsnæði. Tilkynnt var um tvær líkamsárásir í sama hluta borgarinnar.

mbl.is