„Einn af stærstu mörkuðunum okkar“

Ekki er lengur mælt gegn ferðalögum Breta til Íslands.
Ekki er lengur mælt gegn ferðalögum Breta til Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir það mjög jákvætt að bresk stjórnvöld mæli ekki lengur gegn ferðalögum til Íslands. Bretar séu einn stærsti markhópur íslenskrar ferðaþjónustu. 

Bresk yfirvöld birtu á föstudag lista yfir þau 60 lönd hverra farþegar sem koma til Bretlands verða undanskildir reglunni um tveggja vikna sóttkví. Samhliða því birti breska utanríkisráðuneytið annan lista yfir þau ríki sem tekin hafa verið af lista sem ekki er mælt með að Bretar ferðist til. 

Jóhannes segist vita til þess að breskar ferðaskrifstofur hafi áhuga á að hefja ferðir til Íslands að nýju. 

„Þetta er náttúrulega mjög jákvætt. Við vitum til þess að breskar ferðaskrifstofur hafi áhuga á að koma með ferðir til Íslands og hafa verið að bíða eftir því að liðkað verði á reglum. Við eigum von á því að einhverjar breskar ferðaskrifstofur hefju sölu á ferðum til Íslands þegar þetta er orðið svona og það eykur líkurnar á því að þetta gangi betur en ella,“ segir Jóhannes. 

Hann segir Breta einn mikilvægasta markhóp íslenskrar ferðaþjónustum, ekki síst vegna þess að breskir ferðamenn koma hingað til lands frekar utan háannatíma.  

„Bretar eru einn af stærstu mörkuðunum okkar. Það sem kannski gerir þá ólíka öðrum ferðamönnum er að þeir koma flestir utan háannarinnar, sem sagt á vorin eða á haustin. Þeir eru mjög mikilvægur hópur svona á öxlunum þegar háannatíminn stendur ekki yfir og hjálpa fyrirtækjum að ná inn tekjum þegar aðrir hópar eru ekki lengur í spilinu. Það er vonandi að þetta ýti undir það,“ segir Jóhannes. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert