„Hvernig væri þetta ef Strætó væri ekki á háannatíma?“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Dagur B. Eggertsson ræddu um kosti …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Dagur B. Eggertsson ræddu um kosti og galla borgarlínunnar í dag. mbl.is/Samsett mynd

Betra væri ef ráðist hefði verið í byggingu Sundabrautar og aðrar framkvæmdir sem myndu losa um flöskuhálsa í umferðinni í stað þess að fara í uppbyggingu borgarlínunnar. Þá hefði einnig átt að ráðast í bætta ljósastýringu í stað þess að hafa kerfi þar sem borgarlínan hefur forgang og ruglar slík kerfi. Þetta kom fram í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag.

Í þættinum áttust þeir Sigmundur og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri við, en fyrir þinghlé héldu þingmenn Miðflokksins uppi málþófi þegar kom að umræðu um samgönguáætlun sem var að lokum samþykkt.

„Vanhugsað innviðaverkefni“

Sigmundur gagnrýndi borgarlínu áformin og sagði það „vanhugsað innviðaverkefni“ sem kæmi sveitarfélögum í langtíma fjárhagsleg vandamál á sama tíma og það myndi þrengja að annarri umferð. Sagði hann að með þessu væri meirihlutinn að koma því svo fyrir að fólk myndi borga meira fyrir að sitja lengur fast í umferðinni. Sagði hann jafnframt að kostnaður við framkvæmdina væri í lausu lofti og enginn vissi í raun hvað þetta myndi kosta eða hver rekstrarkostnaður yrði.

Þarf að horfa til 70 þúsund manna fjölgunar á næstu 20 árum

Dagur sagði á hinn bóginn að samkvæmt samgöngusáttmálanum, sem er upp á 120 milljarða, ætti að verja um 50 milljörðum í borgarlínu, 50 milljörðum í vegaframkvæmdir og afgangi í stíga og fleiri verkefni. Það væri því ekki eins og sáttmálinn væri aðeins til að koma upp borgarlínunni, heldur væri þetta niðurstaða eftir valkostagreiningu þar sem tekið væri mið af þróun byggðar á komandi áratugum í takt við mismunandi áherslur í samgöngum.

Sagði Dagur sáttmálann því vera ákveðna miðlunarleið sem horfi til allra mögulegra fararkosta, þvert á pólitík. Tók hann fram að á næstu 20 árum myndi íbúum höfuðborgarsvæðisins líklega fjölga um 70 þúsund og að ef aðeins ætti að byggja upp stofnbrautir fyrir bíla myndi það leiða til meiri kostnaðar til lengri tíma.

„Allir njóta góðs af þessu,“ sagði Dagur og vísaði til að samgöngusáttmálinn væri jákvæður fyrir þá sem nota bifreiðar jafnt og þá sem eru gangandi, á hjólum eða ferðast í almenningssamgöngum.

„Með þessu færumst við áratugi aftur í tímann“

Sigmundur var ekki sammála þessu og svaraði því til að fyrirkomulag borgarlínu myndi gera vandamálin í umferðinni enn verri. Þannig væri verið að taka eina akrein í hvora átt sem myndi þrengja að umferð. Vísaði hann í skýrslu ráðgjafafyrirtækisisn Covi sem unnin var í tengslum við borgarlínuverkefnið og sagði að þar kæmi fram að með borgarlínunni fælist ákveðin neyslustýring þar sem fólki væri ýtt úr því að nota bíla yfir í almenningssamgöngur. „Með þessu færumst við áratugi aftur í tímann,“ sagði Sigmundur og bætti við að áður fyrr hefðu aðeins þeir efnameiri getað átt bíl.

Sigmundi varð einnig tíðrætt um kostnað ríkisins við verkefnið og sagði þetta vera opinn tékka inn í framtíðina, bæði fyrir ríkið og borgarbúa. Spurði Sigmundur Dag hvort hann gæti lofað því að ríkið og skattgreiðendur yrðu ekki látnir sitja uppi með reksturinn af borgarlínu í framtíðinni.

Segir Sigmund ekki leggja fram neina aðra valkosti

Dagur benti á að ríkið væri í dag að niðurgreiða almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu og að viðræður um framhald á því varðandi rekstur borgarlínu væri í gangi. Gagnrýndi hann jafnframt Sigmund fyrir að leggja ekki fram neina rökstudda valkosti við samgöngusáttmálann. Benti Dagur á að kerfi svipað borgarlínu væri þegar í gangi í yfir 500 borgum víðsvegar um heiminn og góð reynsla væri af því. Sagði hann að í gegnum vinnu sveitarfélaganna undanfarin ár hefðu fjölmargir komið að verkefninu sem væru ekkert eldheitir stuðningsmenn almenningssamgangna. Hins vegar sæi fólk, þegar það væri búið að fara yfir málin, að svona blönduð uppbygging væri betri fyrir bæði þá sem velja almenningssamgöngur og þá sem velja bíla.

Þriðjungur farþega um Miklubraut á háannatíma í strætó

Sigmundur svaraði gagnrýni Dags og sagði að miklu hefði skipt ef ráðist hefði verið í uppbyggingu Sundabrautar og annarra flöskuhálsa í umferðinni. Þá myndi betri ljósastýring á gatnamótum skipta miklu máli, en borgarlínuáformin eyðilegðu það að mestu þar sem borgarlínan hefði forgang. Sagði hann að fjölmörg verkefni hefðu verið í frosti síðustu ár vegna framkvæmdastopps hjá borginni og að átaksverkefni um fjölgun farþega Strætó hefði mistekist algjörlega. Þannig væru aðeins um 6% allra ferða í borginni farnar með Strætó.

Dagur benti á að 6% talan væri hlutfall af öllum ferðum, líka stuttum ferðum út í búð. Talan væri mun hærri þegar horft væri til þess að um 36% borgarbúa væru með strætókort og að rúmlega þriðjungur farþega sem færu um Miklubraut á háannatíma væru í strætó. Það færi hins vegar lítið fyrir þeim miðað við alla bílaumferðina. „Hvernig væri þetta ef Strætó væri ekki á háannatíma?“ spurði Dagur og bætti við að borgarlínuverkefnið væri ekki bara hagkvæmara fyrir borgina og umhverfið, heldur sérstaklega heimilsbókhald borgarbúa sem gætu með þessu meðal annars reynt að komast hjá því að vera með tvo bíla á hvert heimili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert