Lögreglumaður talinn handleggsbrotinn eftir árás

mbl.is/Eggert

Ráðist var á lögreglumann við skyldustörf í miðborginni í nótt. Samkvæmt dagbók lögreglunnar er lögreglumaðurinn talinn handleggsbrotinn eftir árásina og er málið í rannsókn.

Fleiri ofbeldismál komu á borð lögreglunnar í nótt, en á tólfta tímanum var tilkynnt um hópslagsmál fyrir utan skemmtistað í miðborginni. Þá var einnig tilkynnt um slagsmál á ellefta tímanum fyrir utan skemmtistað og á tólfta tímanum um líkamsárás í austurbænum.

Í Hafnarfirði var einnig tilkynnt um líkamsárás á skemmtistað í gærkvöldi og var einn handtekinn vegna málsins.

Rétt fyrir miðnætti var svo karlmaður handtekinn í miðborginni, en hann var vopnaður kylfu og reyndi að komast undan lögreglunni.

mbl.is