Mikil uppbygging fyrirhuguð á Granda

Svörtu og appelsínugulu húsin á myndinni eru þau sem byggð …
Svörtu og appelsínugulu húsin á myndinni eru þau sem byggð verða, samkvæmt tillögunni. Á móti þeim eru gömlu verbúðirnar. Teikning/ASK arkitektar

Byggja á 15 hús, alls 42.000 fermetra, undir fjölbreytta atvinnustarfsemi á Fiskislóð 22-30 við Gömlu höfnina í Reykjavík. Nýbyggingarnar verða 2-4 hæða háar og koma í stað eldri húsa sem hafa meðal annars verið nýtt undir fiskvinnslu og hjólbarðaverkstæði.

Samþykkt var á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar á miðvikudag að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi þess efnis en þær byggja á tillögum arkitektastofunnar ASK fyrir hönd félagsins Línbergs sem er lóðarhafi.

Svæðið sem um ræðir er á Örfirisey eilítið austan við Sjóminjasafnið. Með deiliskipulagstillöfunni er gert ráð fyrir að starfsemi á svæðinu verði breytt úr „hafnsækinni starfsemi/athafnasvæði“ yfir í „hafnsækna starfsemi, verslun, þjónustu og fínlegri atvinnustarfsemi“. Er það í samræmi við þróun sem orðið hefur á svæðinu undanfarin ár, en eftir því sem eðli fiskverkunar hefur breyst, hefur svæðið tekið stakkaskiptum og upp sprottið ýmis sjávartengd starfsemi á borð við Sjávarklasann.

Heildarbyggingarmagn á svæðinu, verður 45.000 fermetrar en inni í þeirri tölu eru hús sem þegar eru á svæðinu. Núverandi byggingarmagn er rúmir 7.500 fermetrar.

Svona verður umhorfs í göngugötunni.
Svona verður umhorfs í göngugötunni. Teikning/ASK arkitektar

„Það er í samræmi við þróun sjávarútvegs undanfarin misseri og þróun sambærilegra borga í Evrópu að hafnarsvæðin eru orðin afar eftirsótt fyrir margskonar viðburði á sviði menningar og þjónustu auk hafnsækinnar starfsemi,“ segir í deiliskipulagstillögunni. Markmiðið sé að svara aukinni eftirspurn eftir húsnæði til ýmiss konar nota á svæðinu.

Yfirbragð svæðisins mun taka mið af gangandi umferð og takmarkaðri þjónustuumferð. Skamtímahjólastæði verða staðsett nálægt inngöngum bygginga. Þá verður bílastæðahús, sem rúmar 300 bíla en það verður bæði ætlað starfsmönnum og almenningi.

Teikning/ASK arkitektar
mbl.is