Minna um veikindi hjá þeim sem hafa hærri laun

Tekjuhærri hópar borgarstarfsmanna eru með lægra veikindahlutfall en þeir sem …
Tekjuhærri hópar borgarstarfsmanna eru með lægra veikindahlutfall en þeir sem hafa lægri tekjur. mbl.is/Hallur Már

Veikindahlutfall starfsmanna Reykjavíkurborgar sem eru með yfir 550 þúsund krónur í mánaðartekjur er lægra en hjá þeim sem hafa lægri mánaðartekjur. Þetta er meðal þess sem kemur farm í svari  mannauðs- og starfsumhverfissvið borgarinnar við fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokksins, en svarið var lagt fram á fundi borgarráðs í vikunni.

Í fyrirspurn sinni hafði Sanna Magdalena Mörtudóttir, frá Sósíalistaflokknum, spurt út í veikindahlutfall eftir þremur launhópum; undir 400 þúsund krónur á mánuði, frá 400 þúsund upp í 550 þúsund og 550 þúsund krónur og hærra.

Samkvæmt svarinu var veikindahlutfall tekjuhæsta hópsins lægst í fyrra, eða 6,2%. Hjá lægsta tekjuhópnum var hlutfallið 6,9%, en í miðflokknum var hlutfallið 7,3%.

Þegar horft er aftur til síðustu þriggja ára sést að tekjuhæsti hópurinn hefur alltaf verið með lægsta veikindahlutfallið, en lægsti hópurinn og mið hópurinn tóku hins vegar sætaskipti í fyrra. Árin 2017 og 2018 hafði lægsti tekjuhópurinn verið með hærra veikindahlutfall og það farið hæst í 7,6% árið 2018.

Veikindahlutfall eftir launabilum hjá Reykjavíkurborg.
Veikindahlutfall eftir launabilum hjá Reykjavíkurborg. Graf/Reykjavíkurborg

Í svarinu fylgdi einnig tafla sem sýndi hlutfallið milli sviða borgarinnar eftir tekjuhópum. Má þar meðal annars sjá að innan skóla- og frístundarsviðs, umhverfis- og skipulagssviðs og íþrótta- og tímstundasviðs virðist vera fylgni milli tekjuhópa og veikindahlutfalls á þá leið að veikindahlutfallið lækkar með hærri tekjum. Hins vegar er hlutfallið nokkuð jafnt innan velferðarsviðs og á menningar- og ferðamálasviði og innan ráðhússins er miðtekjuhópurinn með hæsta veikindahlutfallið.

Samtals starfa um níu þúsund hjá borginni og var veikdinahlutfallið 6,7% árið 2017, 6,8% árið 2018 og 6,9% árið 2019.

Í fyrirspurn Sönnu var einnig spurt um langtímaveikindi eftir sviðum, en mannauðssviðið sagði að unnið væri að samræmdri skráningu á langtímaveikdinum og sem stendur ekki hægt að taka þau út fyrir borgina í heild fyrir síðustu ár og greina eftir mánaðartekjum.

mbl.is