Að velja sóttkví vekur spurningar

Enginn hefur valið sóttkví í stað skimunar á flugvellinum.
Enginn hefur valið sóttkví í stað skimunar á flugvellinum. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

„Ef aðili velur að fara í sóttkví hringir það ákveðnum viðvörunarbjöllum. Þá fyrst myndi vera skoðað hvort viðkomandi væri velkominn hingað,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson,  lög­reglu­stjóri hjá lög­regl­unni á Suður­nesj­um, spurður um hvenær fólki sem flýgur hingað til lands verði vísað frá á landamærunum. 

Að hans sögn hefur ekki reynt á þetta upp á síðkastið. Þó verði aðrir þættir sömuleiðis skoðaðir ákveði einstaklingar að velja tveggja vikna sóttkví. „Það er ekki einfalt að taka þessar ákvarðanir. Að vísa manni úr landi er mikil aðgerð. Eftir því sem ég best veit hefur ekki reynt á þetta,“ segir Ólafur Helgi. 

Ekki skylt að velja skimun

Straumur fólks hingað til lands hefur þyngst umtalsvert síðustu daga. Nær tvö þúsund manns koma til landsins á degi hverjum. Við komuna getur fólk valið hvort það sæti sóttkví í tvær vikur eða greiði fyrir skimun. Skimunin kostar 9.000 ef greitt er fyr­ir fram en 11.000 ef greitt er eft­ir á. 

Aðspurður segir Ólafur Helgi að fólki verði ekki skylt að velja skimun. Velji einstaklingar aftur á móti sóttkví fái þeir skýrar leiðbeiningar. „Allir hafa valið skimun til þessa. Ef fólk velur hins vegar sóttkví þá þarf viðkomandi að sýna fram á dvalarstað næstu tvær vikur auk þess að fá skýrar leiðbeiningar um hvernig hann á að haga sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert