Borgin verður af 1,1 milljarði

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Eggert Jóhannesson

Vegna mikilllar fjárþarfar óskaði Reykjavíkurborg eftir því við Orkuveitu Reykjavíkur (OR) að víkjandi lán þess fyrrnefnda yrði greitt upp fyrr. Þetta er meðal þess sem fram kom á fundi borgarráðs á fimmtudag. Samið var um lánveitinguna árið 2011 og átti lánið að greiðast upp með jöfnum afborgunum árlega. Síðasta greiðsla samkvæmt upphaflegu samkomulagi var  á gjalddaga árið 2025. 

Í kjölfar áhrifa og útbreiðslu heimsfaraldurs kórónuveiru varð efnahagur Reykjavíkurborgar fyrir höggi. Til að bregðast við því fór fjármála- og áhættustýringarsvið borgarinnar þess á leit við OR að lánið yrði greitt upp í fimm greiðslum á þessu ári. Þannig myndi OR losna undan óhagstæðum vöxtum ásamt því að geta fjármagnað sig á betri kjörum. Sömuleiðis myndi Reykjavíkurborg fá lífsnauðsynlegt fjármagn inn í reksturinn.

„Fegrar stöðu efnahagsreiknings borgarinnar“

Að því er segir í minnisblaði hjá fjármála- og áhættustýringarsviði borgarinnar eru umræddar greiðslur mikilvægar inn í reksturinn. Fjárþörf borgarsjóðs á komandi mánuðum verði jafnframt umtalsverð eigi að halda uppi sama eða auknu fjárfestingarstigi miðað við gildandi áætlun. 

Í bréfi Ingvars Stefánssonar, framkvæmdastjóra fjármála hjá OR, kemur fram að fyrirtækið hafi ákveðið að nýta framangreinda leið. OR mun því greiða fimm afborganir á þessu ári og mun síðasta greiðslan fara fram 1. nóvember nk. Með þessu sparar OR sér rétt um 1,1 milljarð króna brúttó í vexti og verðbætur.

Tekist var um málið á fundi borgarráðs og var eftirfarandi bókun lögð fram af áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: „Reykjavíkurborg er í svo mikilli fjárþörf að pressað er á Orkuveitu Reykjavíkur að greiða upp lán við eigandann, Reykjavíkurborg. Það er jákvætt í sjálfu sér, en sýnir slæma fjárhagsstöðu borgarinnar. Svo virðist vera að Reykjavíkurborg hafi hvergi lánstraust lengur því snúningurinn í þessu máli er að Orkuveitan er látin taka nýtt lán til að borga lán sín við borgina sem fegrar stöðu efnahagsreiknings borgarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert