Flugskýlið stendur

Deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar er lítillega breytt vegna aðkomutengingar við fyrirhugaða Fossvogsbrú.
Deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar er lítillega breytt vegna aðkomutengingar við fyrirhugaða Fossvogsbrú. mbl.is/Árni Sæberg

Borgarráð samþykkti á fundi sínum á fimmtudag tillögu að breytingu á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar. Flugvallargirðing er færð til austurs til móts við Nauthólsvík vegna aðkomutengingar við Fossvogsbrú, en breytingin er til komin vegna samþykkts skipulags um uppbyggingu 1.300 íbúða í Nýja-Skerjafirði. Það landsvæði sem færist út fyrir gildandi deiliskipulagsmörk Reykjavíkurflugvallar færist yfir á deiliskipulag Nýja-Skerjafjarðar.

Fallið var frá ákvörðun um að minnka flugvallarsvæðið um hálfan hektara og sömuleiðis fyrri hugmynda um að vegur yrði lagður um svæðið þar sem nú er flugskýli flugfélagsins Ernis. Forstjóra flugfélagsins hafði á fundi með borgarstarfsmönnum 30. apríl verið tilkynnt að skýlið yrði að víkja vegna þessa, en mánuði síðar var dregið í land. Í samtali við mbl.is sagði Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs, að engin ákvörðun hefði verið tekin um lagningu vegarins.

„Í fyrstu til­lögu að þess­um vegi átti hann að liggja þar sem skýlið er, það komu fram mót­mæli gegn þeim áform­um á fundi með Erni og þá var strax farið í að skoða aðrar mögu­leg­ar leiðir fyr­ir veg­inn. Við erum ekki að fara raska þessu skýli á meðan flug­völl­ur­inn er í rekstri og það er eng­in ástæða til að ótt­ast það,“ sagði Sig­ur­borg þá. 

Hörður Guðmundsson, forstjóri flugfélagsins Ernis sagði af því tilefni að ánægjulegt væri að borgin hefði gefið eftir, en undraðist að enginn frá borginni hefði sett sig í samband við flugfélagið til að láta vita af sinnaskiptunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert